Viðskipti erlent

Stenhammar hættir hjá OMX

Olof Stenhammar OMX var stofnað árið 1984 af Olof Stenhammar sem fæddur er árið 1941. Hann hverfur í vor til annarra starfa.
Olof Stenhammar OMX var stofnað árið 1984 af Olof Stenhammar sem fæddur er árið 1941. Hann hverfur í vor til annarra starfa. MYND/OMX

Olof Stenhammar, stofnandi og stjórnarformaður OMX kauphallarsamstæðunnar, gefur ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn félagsins á aðalfundi þess á næsta ári.

Eftir að hafa stofnað OMX árið 1984 var Stenhammar forstjóri félagsins allt fram til ársins 1996. Þá gerðist hann stjórnarformaður félagsins og hefur starfað sem slíkur síðan.

„OMX hefur verið í fararbroddi í þeim umbreytingum sem kauphallir heimsins hafa gengið í gegnum síðustu áratugina, hvort heldur sem varðar skipulag, eða notkun nýjustu tækni í greiðslumiðlun. Reynslan af því að taka frumkvæði og vera með í þessu ferðalagi hefur verið stórkostleg,“ segir Olof Stenhammar í tilkynningu þar sem hann greinir frá ákvörðun sinni. Hann segir að þótt OMX sé á margan hátt orðið stór hluti af honum sjálfum þurfi leiðir að skilja.

„Í dag er OMX alþjóðlegt fyrirtæki með óhemjubjartar framtíðarhorfur og mjög hæfa stjórn og stjórnendur. Núna virðist því rétta stundin til að taka þetta skref,“ segir hann og segist hlakka til að takast á við önnur spennandi verkefni. „Svo gæti jafnvel farið svo að maður tæki sér penna í hönd og kæmi einhverju á blað. Margt hefur gerst öll þessi ár og mögulegt að sagan kynni að vekja forvitni,“ segir Olof Stenhammar.

Aðalfundur OMX verður haldinn 12. apríl næstkomandi. Félagið rekur kauphallir á Norðurlöndum og í Eystrasaltinu, Helsinki, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Reykjavík, Tallinn, Riga og Vilniusi. Frekari upplýsingar um samstæðuna er að finna á slóðinni www.omxgroup.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×