Erlent

Ofsatrúarmenn í Írak hvetja til árása

Hópur herskárra ofsatrúarmanna í Írak hvetur meðlimi sína til að ráðast á þá Dani og Norðmenn sem meðlimirnir mögulega ná til. Ástæðan eru skopteikningarnar af spámanninum Múhameð sem birst hafa í dagblöðum í löndunum tveimur.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hvatti í gær leiðtoga danskra múslíma til að lægja öldurnar meðal trúbræðra sinna og taka afstöðu gegn því að danskar vörur verði sniðgengnar enda væri dönskum vinnustöðum haldið í gíslingu með því. Forsætisráðherrann leyndi því ekki að hann telur trúarleiðtoga hafa haft áhrif á það hve málið hefur blásið upp. Jótlandspósturinn segir myndirnar ekki stríða gegn dönskum lögum en margir múslímar hafi tekið þær sem móðgun og hefur blaðið því beðist afsökunar. Sádi-Arabía hefur kallað heim sendiherra sinn í Kaupmannahöfn vegna málsins. Þá hefur Líbýa lokað sendiráði sínu í Danmörku. Danir og Norðmenn í Palestínu hafa verið varaðir við því að þeir geti búist við árásum en öfgasinnaðir múslimar hafa hvatt fólk til að ráðast á skandinava sem staðsettir eru á svæðinu.

 



Danahatur nokkuð víða meðal múslima

Almenningur í fjölda múslimalanda hefur verið hvattur til að sniðganga danskar vörur og ætla spítalar margir hverjir til að mynda að hætta að kaupa danskt insúlín frá Novo Nordisk. Bandarískur almenningur virðist ætla að koma Dönum þó til bjargar en á fjölmörgum bandarískum vefsíðum er hvatt til þess að fólk kaupi danskar vörur og búist er við því að Bandaríkjamenn muni á næstunni hampa dönskum bjór, skinku og bakkelsi. Þá hefur NFS það eftir Íslendingi, sem er búsettur í Kaupmannahöfn, að þar gangi SMS skeytin á milli manna þar sem Danir eru hvattir til að sniðganga verslanir og önnur fyrirtæki múslima í borginni. Óhætt er að segja að Danahatur sé orðið nokkuð víða í múslimalöndum en meirihluti Dana er á þeirri skoðun að ekki hafi átt að biðjast afsökunar á myndbirtingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×