Viðskipti erlent

Hagvöxtur minnkar í helstu hagkerfunum

Efnahags- og framfarastofnunin segir flest benda til að hagvöxtur muni minnka á næstunni hjá sjö stærstu hagkerfum í heimi. Kanada og Brasilía er þar undanskilin. Þá er hagvöxtur sagður fara minnkandi í Kína og öðrum stórum hagkerfum en vera stöðugur í löndum á borð við Bandaríkin, Indland og Rússland. Hagvöxtur á evrusvæðinu stendur sömuleiðis í stað á milli mánaða.

Samanteknir hagvísar sem OECD styðst við benda til að hagvöxtur sjö stærstu hagkerfanna innan OECD hafi dregist saman um 0,1 punkt á milli mánaða í ágúst, samkvæmt staðli sem stofnun notar til útreikninganna. Þetta er fimmti mánuðurinn í röð sem hagvöxtur í löndunum dregst saman.

Á meðal þess sem fram kemur í skýrslu OECD er að hagvöxtur í Japan minnkaði um 0,5 punkta og hefur minnkað jafnt og þétt í sex mánuði. Hagvöxtur í Bretlandi minnkaði um 0,1 punkt á sama tíma og hefur dregist saman síðastliðna fjóra mánuði. Sama máli gegnir um Kína en hagvöxtur þar minnkaði um 0,3 punkta í ágúst, samkvæmt útreikningunum og hefur hægt á hagvextinum þar í landi síðan í apríl á þessu ári.

Öðru máli gegnir um Kanada og Brasilíu. Þrátt fyrir að hagvöxtur í Kanada hafi dregist saman um 0,2 punkta í ágúst þá hefur hagvöxtur vaxið jafnt og þétt síðan í maí á síðasta ári, að sögn OECD. Þá jókst hagvöxtur í Brasilíu um eina 2,8 punkta og var þetta þriðji mánuðurinn í röð sem hann eykst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×