Erlent

Slagorð hrópuð að ríkisstjórninni

MYND/AP

Talið er að áttatíu þúsund manns hafi fylgt Bulent Ecevit, fyrrverandi forsætisráðherra Tyrklands, til grafar í höfuðborginni Ankara í dag. Fólkið hrópaði slagorð til stuðnings áframhaldandi aðskilnaðar ríkis og trúar í landinu og var orðunum augljóslega beint að Recep Tayyip Erdogan, núverandi forsætisráðherra, sem einnig var viðstaddur útförina. AK-flokkurinn, sem Erdogan leiðir, á hugmyndafræðilegar rætur í pólitísku íslam. Þótt þorri Tyrkja aðhyllist íslam er þar engin opinber ríkistrú og trúarlegir stjórnmálaflokkar eru því bannaðir.

Ecevit var einn áhrifamesti stjórnmálamaður Tyrklands síðustu áratuga en hann myndaði ríkisstjórn fimm sinnum á árunum 1974-2002. Hann er þekktastur fyrir að hafa fyrirskipað innrásina á Kýpur 1974, eftir að Kýpur-Grikkir rændu þar völdum, og að hafa fengið Evrópusambandið til að hefja aðildarviðræður við Tyrkland árið 1999, en þær eru einmitt nú í uppnámi vegna Kýpur-deilunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×