Viðskipti erlent

Virgin America fær ekki flugrekstrarleyfi

Richard Branson. Flugfélag Virgin Group fær ekki flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum af því eigandinn er breskur.
Richard Branson. Flugfélag Virgin Group fær ekki flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum af því eigandinn er breskur. Markaðurinn/AFP

Samgöngumálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákveðið að veita lággjaldaflugfélaginu Virgin America ekki flugrekstrarleyfi í landinu. Flugfélagið er eitt af dótturfélögum bresku samstæðunnar Virgin Group, sem er í eigu breska auðkýfingsins Richards Branson. Undirbúningur fyrir starfsemi flugfélagsins hefur staðið yfir síðastliðin tvö ár.

Ástæðan fyrir neituninni er sú að bandarísk lög um starfsemi flugfélaga kveða á um að eignarhlutur erlendra aðila í flugfélögum á innanlandsmarkaði einskorðast við fjórðungshlut og mega Bandaríkjamenn ekki eiga minna en 75 prósent í þeim. Þetta er þvert á vonir forsvarsmanna Virgin Group, sem á 49 prósenta hlut í Virgin America. Þá kveða reglurnar sömuleiðis skýrt á um svipað hlutfall erlendra aðila í stjórnum flugfélaga.

Til stóð að Virgin America hæfi starfsemi snemma á næsta ári. Óljóst er hvort af því verði en forsvarsmenn Virgin Group ætla að svara flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum í næsta mánuði.

Virgin Group á meirihluta í fjölda flugfélaga víða um heim. Svo sem í Evrópu, Ástralíu og í Nígeríu. Á meðal þeirra er Virgin Atlantic, sem sinnir flugi til áfangastaða víða um heim, svo sem á milli Bretlands, Bandaríkjanna, til Austurlanda og Afríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×