Viðskipti erlent

Stork gefur sölu á hluta undir fótinn

Stork fyrirtækjasamstæðan í Hollandi horfir til nokkurra fjárfestingarkosta sem gætu leitt til uppskiptingar á samstæðunni ef til þess þyrfti að koma til að fjármagna kaupin, hafa erlendir fjölmiðlar eftir Jan Kalff, stjórnarformanni Stork.

Kalff segir koma til greina að selja eina af þremur einingum Stork ef til þess kæmi að fyrirtækið réðist í kaup sem væru of stór til að gleypa í einum bita, sagði hann við Financial Times.

Bandarísku fjárfestingarsjóðirnir Centaurus Capital og Paulson & Co hafa þrýst á um uppskipti samstæðunnar til að losa dulið virði og innleysa hagnað.

Í janúar verður haldinn hluthafafundur að beiðni sjóðanna, sem eiga tæplega 32 prósenta hlut í Stork, þar sem meðal annars verður borið fram vantraust á stjórn Stork og takmarkaðar valdheimildir hennar. Kalff segir hins vegar fyrirtækið verða óstarfhæft ef leita þurfi heimildar hluthafa við allar meiri háttar ákvarðanir.

Marel hefur hug á að kaupa Stork Food Systems en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa ekki farið fram formlegar viðræður þar að lútandi. Marel bíður þar til niðurstaða fæst í deilu Stork og bandarísku fjárfestingarsjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×