Viðskipti erlent

Stýrivöxtum haldið óbreyttum vestra

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Reiknað er með lækkun stýrivaxta snemma á næsta ári.
Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Reiknað er með lækkun stýrivaxta snemma á næsta ári. MYNDAFP

Í rökstuðningi stjórnar seðlabankans fyrir ákvörðuninni var áréttað líkt og fyrr að bankinn muni fylgjast grannt með verðbólguþróun í Bandaríkjunum.

Greiningardeild Glitnis sagði í Morgunkorni sínu á þriðjudag að verðbólga væri lág í Bandaríkjunum eða 1,3 prósent. Þá hefur hægt nokkuð á hagvexti vestanhafs á árinu en hann fór úr 2,6 prósentum á fyrsta fjórðungi ársins niður í 2,2 prósent á þeim þriðja, sem þó er umfram spár. Glitnir bendir hins vegar á að þensla sé á vinnumarkaði og hröð hækkun launakostnaðar vestanhafs valdi því að stjórn seðlabankans verði að vera á varðbergi.

Hagfræðingar í Bandaríkjunum eru sama sinnis og benda á að vísbendingar séu uppi um enn frekari hægingu á efnahagslífinu á næsta ári og benda á að vísitala framleiðslukostnaðar hafi ekki verið verri í þrjú ár. Það hafi komið illa niður á gengi bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum, ekki síst breska pundinu en fyrr í þessum mánuði hafði dalur ekki verið lægri gagnvart pundinu í 14 mánuði.

Flestir eru þó á einu máli um að seðlabankinn muni hefja vaxtalækkunarferli snemma á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×