Viðskipti innlent

Farice 2 lagður fyrir ríkisstjórn á föstudag

Í skýrslu þar sem fjallað var um möguleikann á því að koma hér upp alþjóðlegri fjármálamiðstöð er örugg gagnatenging við útlönd sögð ein af grunnforsendum. Til að viðkvæm starfsemi þrífist hér þarf að sýna fram á að óheppilegt botnvörputog geti ekki kippt landinu úr sambandi.
Í skýrslu þar sem fjallað var um möguleikann á því að koma hér upp alþjóðlegri fjármálamiðstöð er örugg gagnatenging við útlönd sögð ein af grunnforsendum. Til að viðkvæm starfsemi þrífist hér þarf að sýna fram á að óheppilegt botnvörputog geti ekki kippt landinu úr sambandi. MYND/AFP

Óli Kristján Ármannsson

skrifar

Nefnd sem samgönguráðherra skipaði í vor leggur, samkvæmt heimildum Markaðarins, til að ráðist verði sem fyrst í lagningu nýs sæstrengs með aðkomu ríkisins til að tryggja öryggi gagnaflutninga til og frá landinu. Nýr strengur kæmi til viðbótar Farice-1 sæstrengnum sem tekinn var í notkun í febrúarbyrjun 2004 og svo tenginga um Cantat-3 sæstrenginn sem kominn er til ára sinna.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kemur til starfa í dag eftir vinnuferð til útlanda og tekur við skýrslu nefndarinnar, en í henni eiga sæti fulltrúar Farice, Símans, Vodafone, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins. Á föstudag er svo stefnt að því að ráðherra kynni tillögur nefndarinnar í ríkisstjórn og að þær verði svo í kjölfarið gerðar opinberar. Ætlað er að kostnaður við lagningu nýs sæstrengs nemi um þremur milljörðum króna.

Verkefni nefndarinnar var að huga að því hvort og hvernig koma ætti á varasambandi við útlönd um sæstreng og hvaða leiðir væru færar í þeim efnum, bæði hvað varðaði fjármögnun og rekstur. Velt er upp mögulegu samstarfi við fyrirtæki og eins önnur lönd, en Farice-sæstrengurinn var sem kunnugt er lagður í samstarfi fjarskiptafyrirtækja hér heima og í Færeyjum auk aðkomu ríkisins.

Líklegt er að sérstaklega sé horft til samstarfs við Færeyjar, en þar hefur þegar verið ákveðið að ráðast á næsta ári í lagningu nýs sæstrengs til viðbótar við Farice-strenginn. Kjósi stjórnvöld hér að efna til samstarfs við Færeyinga og fá að samnýta þann streng þurfa þau því væntanlega að bregðast skjótt við. Þann streng á að leggja til Skotlands, líkt og Farice-1 strenginn, en stefnt er að því að færeyski strengurinn nýi verði kominn í rekstur í nóvember á næsta ári.

Forsvarsmenn upplýsingatæknifyrirtækja hafa bent á nauðsyn þess að hér sé tryggt öryggi gagnaflutninga. Þannig hefur Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, framleiðandi tölvunetleiksins EVE Online, sagt skort á slíkri tengingu hafa verið ráðandi í að allir miðlarar leiksins voru settir upp í lundunum.

Í niðurstöðum nefndar forsætisráðherra um alþjóðlega fjármálastarfsemi hér, sem kynnt var í byrjun síðasta mánaðar, er einnig bent á að í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um stefnu í fjarskiptamálum 2005-2010 komi fram að „fjarskiptasamband milli Íslands og útlanda sé viðkvæmt fyrir óvæntum áföllum, svo sem bilunum eða skemmdarverkum, og staðan því óásættanleg til lengri tíma litið vegna viðskiptahagsmuna og þjóðaröryggis“.

Staðan er sögð geta hamlað því að innlend og erlend fyrirtæki teldu sér fært að ráðast í að byggja hér upp þjónustu sem krefðist öruggrar tengingar við umheiminn. Nefnd forsætisráðherra taldi því mikilvægt að hefja hið fyrsta lagningu á nýjum sæstreng. Ljóst er af viðræðum við þá sem til þekkja að almennt séu menn sammála um nauðsyn þess að leggja nýjan streng og því viðbúið að mjög fljótlega verði tekin ákvörðun um að ráðast í verkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×