Viðskipti erlent

Nissan framleiðir umhverfisvæna bíla

Nissan ætlar að setja umhverfisvænan bíl á markað á næsta ári. Markaðurinn/AFP
Nissan ætlar að setja umhverfisvænan bíl á markað á næsta ári. Markaðurinn/AFP

Japanski bílaframleiðandinn Nissan Motors svipti hulunni af umhverfisvænum bíl sem gengur fyrir etanólblöndu á bílasýningu í Los Angeles í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Framleiðsla hefst á næsta ári. Bíllinn er liður í bættri umhverfisstefnu fyrirtækisins en vél hans byggist á tækni frá Toyota, einum helsta keppinauti Nissan í Japan.

Nissan kynnti sömuleiðis í vikunni nýja áætlun til næstu fjögurra ára sem draga á úr útblæstri bíla. Eftir 2010 vonast fyrirtækið til að kynna til sögunnar rafmagnsbíl, en hann yrði sá fyrsti sinnar tegundar í Japan.

Nissan hefur hafið samstarf við franska bílaframleiðandann Renault um smíði á tveggja lítra bíl, sem líta mun dagsins ljós á fyrri helmingi næsta ári. Nissan stóð framarlega á tæknisviðinu í japanska bílaiðnaðinum á árum áður. Með bættri umhverfisstefnu og markmiðum til næstu ára sem stuðla eiga að minni útblæstri stefnir fyrirtækið að því að verða leiðandi á sviði umhverfisvænna og sparneytinna bíla á heimsvísu.

Sérstaklega er horft til bandaríska markaðarins en ökutækjaeigendur þar í landi hafa margir snúið baki við bandarískum bensínsvelgjum í kjölfar snarpra hækkana á eldsneyti á þessu ári og horfa til sparneytinna japanskra bíla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×