Skoðun

Ekkert til að biðjast afsökunar á

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar
Ögmundur Jónasson er vaxandi stjórnmálamaður, stefnufastur, ötull og fylginn sér. En stundum vottar fyrir því, að hann sé helst til trúgjarn. T.d. hefur hann látið Þór Whitehead telja sér trú um það, að við Steingrímur Hermannsson, fv. forsætisráðherra, hefðum stundað njósnir um samráðherra okkar í ríkisstjórn Steingríms 1988-91. Það gerðum við Steingrímur að sönnu ekki og þurfum því ekki að biðjast afsökunar á því.

Málið snýst um allt annað. Við fall Astur-Þýskalands hófst kapphlaup um að komast í skjalasafn STASI, ríkisleynilögreglu alþýðulýðveldisins. Þetta var víst mesta leyniþjónusta í heimi, að tiltölu við fólksfjölda. Talsverður hópur Íslendinga hafði stundað nám í lögregluríkinu og angar STASI teygðu sig víða. Vitað var að STASI hafði gengið hart að erlendum námsmönnum um að ganga í þeirra þjónustu.

Við sameiningu Þýskalands tóku vesturþýsk stjórnvöld yfir ábyrgð á þrotabúi alþýðulýðveldisins, þ.m.t. á skjalasafni leynilögreglunnar. Það eina sem ég gerði, að höfðu samráði við forsætisráðherra, var að biðja íslenskan embættismann í fastanefndinni hjá NATO að fylgjast með því, hvort skjalasafnið geymdi einhverjar upplýsingar, sem Ísland varðaði. Forsætisráðherra kom það nefnilega við og lái honum hver sem vill.

Við Steingrímur gátum því miður ekki beðið íslensku leyniþjónustuna um þetta viðvik, þar sem láðst hafði að upplýsa okkur um tilvist hennar. Hins vegar tóku ýmsir það upp hjá sjálfum sér að fara á vettvang og snuðra í safni STASI, þeirra á meðal Þór Whitehead. Og Ögmundur má trúa því, að Þór var ekki á vegum okkar Steingríms.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×