Lífið

Mexíkó á Laugaveginum

Logandi sterkur chili-pipar
Ef piparinn er fræhreinsaður ofbýður hann ekki viðkvæmum bragðlaukum, segir Vanessa.
Logandi sterkur chili-pipar Ef piparinn er fræhreinsaður ofbýður hann ekki viðkvæmum bragðlaukum, segir Vanessa.

Mexíkóskur matur er í uppáhaldi hjá mörgum Íslendingum. Í versluninni Plaza Mexico, sem er til húsa að Laugavegi 70, kennir ýmissa grasa. Auk skartgripa og gjafavöru má þar finna ýmsa hápunkta úr mexíkóskri matargerð.

Eigandi búðarinnar, Vanessa G. Basañez Escobar, segir Íslendinga yfir höfuð vera opna og til í að prófa hvað sem er. „Fólk virðist samt halda að mexíkóskur matur sé mjög sterkur, en hann þarf ekki að vera það. Það er hægt að hreinsa chili og sleppa fræjunum,“ sagði hún, en í búðinni má einmitt finna nokkrar gerðir af þurrkuðum chili-pipar. Þar má einnig nálgast tilbúnar maístortillur, eða maísmjöl ef fólk vill búa þær til sjálft.

Vanessa mælir sérstaklega með mexíkóskum sósum og achiote-marineringu. „Við erum með nokkrar gerðir af sósum, þar á meðal mole, sem inniheldur meðal annars súkkulaði og chili og er frábær með kjúklingi. Achiote-þykkninu má blanda við appelsínusafa til að búa til maríneringu sem er mjög góð með svínakjöti,“ sagði Vanessa.

Matreiðslunámskeið á vegum Vanessu og Plaza Mexico fara af stað á morgun, en þau verða haldin í Hússtjórnunarskóla Reykjavíkur. „Við ætlum meðal annars að búa til tortillur, sýna fólki hvernig hægt er að nota chili og kenna því hvaða pipar er sterkastur,“ sagði hún. Áhugasamir geta haft samband við Plaza Mexico til að skrá sig. Fólk í leit að skyndilausn þarf þó ekki að örvænta, því í búðinni má nálgast ýmsar uppskriftir sem gætu glatt bragðlauka unnenda mexíkóskrar matargerðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.