Lífið

Að spyrja réttu spurninganna

Ræðir við gesti alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í reykjavík Leikstjórinn Atom Egoyan hikar ekki við að spyrja erfiðra og pólitískra spurninga.
Ræðir við gesti alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í reykjavík Leikstjórinn Atom Egoyan hikar ekki við að spyrja erfiðra og pólitískra spurninga. MYND/Anton

Leikstjórinn Atom Egoyan er sérstakur gestur Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík og handhafi verðlauna þeirra fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn. Egoyan ræddi við Kristrúnu Heiðu Hauksdóttur um pólitíkina, stafrænu byltinguna og samband sitt við leikhúsið.

Egoyan er viðkunnalegur maður sem liggur mikið á hjarta, hann er sögumaður af guðs náð en tök hans á kvikmyndaforminu hafa hrifið áhorfendur víða um heim. Þekktustu myndir hans hingað til eru The Sweet Hereafter frá 1997 og Exotica frá 1994 sem báðar eru til sýninga á hátíðinni nú. Enn fremur er hann þekktur fyrir hina umdeildu mynd Ararat en viðfangsefni hennar er þjóðarmorð Tyrkja á Armenum í upphafi síðustu aldar sem Tyrkir hafa aldrei viðurkennt.

Rætur í leikhúsinu
Úr myndinni Where the truth lies
Egoyan er fæddur í Karíó en foreldrar hans voru armenskir flóttamenn sem síðar fluttu til Kandada. Samfara háskólanámi sínu í Toronto lagði Egoyan stund á alþjóðasamskipti og klassískan gítarleik og komst ungur í kynni við leikhúsið. „Um það leiti sem ég útskrifaðist úr framhaldsskóla hafði ég skrifað tólf leikrit og hélt raunar að ég yrði leikskáld. Ég elska enn leikhúsið, absúrdleikhúsið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér,“ segir hann og nefnir Pinter, Adamov og Ionesco í því tilliti að ógleymdum Beckett en Egoyan gerði kvikmyndaaðlögun byggða á leikverki hans, Síðasta segulband Krapps, sem hann mun mögulega sýna íslensku kvikmyndaáhugafólki. Ennfremur er Egoyan á leið til Lundúna þar sem hann mun halda erindi um Beckett í Tate-listasafninu í lok vikunnar. Síðar heldur hann til Frankfurt þar sem hann tekur við verðlaunum á bókamessunni þar í borg fyrir nýlega kvikmyndaaðlögun sína á samnefndri skáldsögu Rubert Holmes, Where the Truth lies.

Auk þess að starfa við kvikmyndir hefur Egoyan einnig unnið verk fyrir sjónvarp, komið að óperuuppsetningum og unnið innsetningar fyrir gallerí. Tvístraðar langanirEgoyan vísar til örvæntingar og geggjunar í viðfangsefnum absúrdleikhússins sem heillar hann mest, en í myndum leikstjórans má á vissan hátt sjá votta fyrir slíku. Þegar verk hans ber á góma verður sumum tíðrætt um afneitun, sambandsleysi og firringu. Flóknar fjölskylduaðstæður, hlutur minninganna og tvístraðar langanir mannins gegna lykilhlutverki þegar Egoyan varpar mannlífsstúdíum sínum á hvíta tjaldið eða á sjónvarpsskjáinn. Hann skrifar öll sín handrit sjálfur og hikar ekki við að spyrja erfiðra spurninga.

Deilurnar sem spruttu upp í kringum Ararat leiddu til þess að hann tók pólitískari afstöðu en ella og hann segir að það muni mögulega endurtaka sig með nýjustu mynd hans, Citadel. „Ég var efins þegar ég gerði Ararat, myndin átti að vekja umræðu en vakti gífurlega hörð viðbrögð. Ég varð að verja pólitíska afstöðu armenska samfélagsins og tala um þessi mál því ég er ekki hlutlaus í minni skoðun.“ Egoyan kveðst hafa mikinn áhuga á alþjóðapólitík en hann er virkur í baráttustarfi mannréttindasamtaka í heimalandi sínu. „Mér finnst hlutverk listarinnar vera að spyrja réttu spurninganna en ekki endilega svara þeim. Ég efast sjálfur um listamenn sem reyna að hafa áhrif á túlkun áhorfenda sinna en stundum er það nauðsynlegt,“ segir hann.

Egoyan áréttar þó að mikilvægt sé að fólk sé meðvitað um að listin og þá sér í lagi kvikmyndir séu túlkun. „Myndir geta verið tælandi og þær gefa fyrirheit um að það sem við sjáum sé satt og rétt,“ segir hann og bætir við að þess vegna sé orðfæri og myndmáli beitt til að að framandgera aðstæður og árétta huglægnina sem býr að baki hverri túlkun. „En ef þú ert meðvitaður um hlutverk þitt og ábyrgð sem áhorfandi upplifir þú listina á annan hátt,“ úskýrir Egoyan. Persónuleg myndNýjasta verk Egoyan er af allt öðrum toga en heimildamyndin Citadel á sér óvenjulegan aðdraganda. „Citadel er undarleg mynd,“ viðurkennir Egoyan, „hún var tekinn upp í fjölskylduferð til Beirút fyrir tveimur árum. Ákveðnir ófyrirsjánlegir en merkilegir atburðir áttu sér stað í þeirri ferð og þegar við komum heim sett ég myndirnar inn á tölvuna og fór að leika mér með þær. Myndin varð síðan að bréfi til sonar okkar því hann mun aldrei muna þessa ferð eins og við, hann er bara tíu ára, en þessi ferð breytti lífi foreldra hans. Myndin er ekki endilega sönn í þeim skilningi, hún hefur eiginleika heimagerðs fjölskyldumyndbands en hefur dramatíska byggingu,“ útskýrir hann.

Vegna ástandsins í Beirút er Egoyan mjög meðvitaður um hvar hann sýnir myndina. „Ég held að myndin vekji mjög sterk viðbrögð við pólitísku ástandi í landinu, hún er um fjölskyldusambönd en þetta er líka mynd um landið og borgina og þess vegna hef ég ekki dreift henni markvisst.“ Egoyan áréttar að það hafi verið mjög áhugavert að vinna að myndinni ekki aðeins vegna þess að hún sé mjög persónuleg heldur vegna þess að hún er gerð fyrir mjög lítið fé. „Á sama tíma var ég að klára Where the Truth lies sem er dýrasta mynd mín hingað til. Svo er bara spurning hvert ég sný mér næst - ég er alls ekki viss um hvar ég ætla að staðsetja mig,“ segir hann að lokum.

Egoyan mun flytja erindi og svara spurningum kvikmyndaáhugafólks í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 15 í dag auk þess sem hann sýnir myndbrot úr nýjustu verkum sínum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.