Franska dagblaðið Les Echos greinir frá því í dag að hugsanlega muni evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus tilkynna um tafir á afhendingu A380 risaþota frá félaginu á næstu dögum. Ef rétt reynist verður þetta í þriðja sinn á árinu sem tafir verða á afhendingu þessara stærstu risaþotu í heimi.
Gengi hlutabréfa í EADS, móðurfélagi Airbus, lækkaði um 1,5 prósent í dag en það hafði lækkað um allt að fjórðung síðan fyrst var greint frá töfum á framleiðslu þotanna fyrr á þessu ári.
Samkvæmt Les Echos mun Airbus einungis geta afhent fjórar risaþotur á næsta ári en fyrirhugað var að afhenda 9 vélar á árinu.
Talsmaður Airbus sagði innri endurskoðun enn í gangi í fyrirtækinu en sagði EADS ekkert ætla að láta hafa eftir sér fyrr en eftir næsta stjórnarfund móðurfélagsins 29. september næstkomandi.