Innlent

Efast um skynsemi vísindaveiðanna

Hilmar Malmquist Telur hrefnuveiðarnar ekki skila mikilvægum niðurstöðum í rannsóknarlegu tilliti.
Hilmar Malmquist Telur hrefnuveiðarnar ekki skila mikilvægum niðurstöðum í rannsóknarlegu tilliti.

Hvalaskoðunarsamtök Íslands sendu í gær frá sér fréttatilkynningu þar sem fyrirhuguðum veiðum á 50 hrefnum í vísindaskyni er harðlega mótmælt. Í fyrra voru 39 hrefnur veiddar í vísindaskyni en ákveðið að hafa skammtinn 50 dýr á þessu ári til þess að flýta rannsóknunum.

Samtökin mótmæla jafnframt "fullyrðingu Hafrannsóknastofnunar um að þessi ákvörðun sé í samræmi við hvalarannsóknaráætlun sem lögð var fyrir vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins árið 2003", eins og segir orðrétt í tilkynningunni.

Áætlunin gerði ráð fyrir því að 200 hrefnur, 200 langreyðar og 100 sandreyðar yrðu veiddar á tveimur árum.

Doktor Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, segir mörgum spurningum varðandi veiðarnar vera enn ósvarað. "Hvað ætlar Hafrannsóknastofnun að gera við niðurstöðurnar sem fást úr þessum vísindaveiðum? Ef það kemur í ljós, að hrefnustofninn er að éta mikið af nytjafiski, til hvaða ráðstafana verður þá gripið? Ég myndi telja skynsamlegra að efla rannsóknir á stærð hrefnustofnsins, frekar en að veiða nokkur dýr á ári," segir Hilmar og leggur áherslu á að það skipti miklu máli að vita hversu stórir hvalastofnarnir eru, ef það á að veiða þá á annað borð, en minna máli skipti hvað hvalirnir séu að éta.

Ásbjörn Björgvinsson, for­maður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, segir vísindaveiðarnar hafa skaðað hvalaskoðunargreinina með beinum hætti. "Hrefnuveiðimenn veiða oftar en ekki svokallaða "skoðara", sem eru hrefnurnar sem koma nálægt bátunum. "Skoðararnir" eru okkar söluvara í hvalaskoðuninni og þess vegna skaðar það greinina með beinum hætti þegar dýrin eru veidd," sagði Ásbjörn og lagði áherslu á að Hafrannsóknastofnun gæti ekki fullyrt um það hvort stærð hrefnustofnsins gæti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu nytjafiska.

"Stofnunin hefur slegið því fram, með stórum orðum, að stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu nytjafiska. Fram á þetta hefur aldrei verið sýnt og það er ábyrgðarlaust af hálfu stofnunarinnar að lýsa þessu yfir, án nokkurra forsenda. Auk þess skaða veiðarnar, sem skila engum tekjum heldur aðeins kostnaði, atvinnugrein sem skilar miklum tekjum í þjóðar­búið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×