Erlent

Bush er áhyggjulaus

George W. Bush Bandaríkjaforseti kvaðst í gær skilja hvers vegna bandamenn sínir vildu kalla hermenn sína heim frá Írak en þvertók fyrir að bandalag hinna viljugu þjóða væri hrunið. Síðan Bandaríkjamenn gerðu innrásina í Írak fyrir um tveimur árum hafa fjórtán þjóðir dregið herlið sitt heim frá landinu. Í fyrradag boðaði svo Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, brottflutning ítalskra hermanna frá Írak með haustinu en 3.000 Ítalir gegna herþjónustu í landinu. Ákvörðun Berlusconis kemur í kjölfar mikillar reiðiöldu á Ítalíu vegna morðsins á ítölskum leyniþjónustumanni sem tók þátt í að frelsa blaðakonuna Giuliana Sgrena á dögunum. Hollenskir og úkraínskir hermenn streyma nú einnig heim frá Írak. Bush sagði að Bandaríkjamenn yrðu í Írak þangað til Írakar væru sjálfir í stakk búnir til að taka við landvörnum og löggæslu landsins. Aðspurður neitaði hann því að bandalag hinna viljugu þjóða væri að hrynja þótt margar þjóðir drægju nú herlið sitt heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×