Erlent

Brottflutningur hefst á morgun

Sýrlendingar hefjast handa á morgun við að flytja hluta hersveita sinna frá Líbanon. Bandaríkjamenn gefa lítið fyrir loforðin og krefjast þess að allar erlendar hersveitir hverfi brott úr landinu strax. Hersveitir Sýrlendinga hafa verið í Líbanon í þrjátíu ár þrátt fyrir þrýsting á alþjóðavettvangi, m.a. frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, tilkynnti í gær um brottflutning hersveitanna í tveimur þrepum að landamærum Sýrlands og Líbanons. Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar telja yfirlýsingarnar innihaldslitlar og krefjast þess að allar erlendar hersveitir yfirgefi landið strax. Í dag tilkynnti Abdul-Rahim Murad, varnarmálaráðherra Líbanons, hins vegar að brottflutningur hæfist á morgun strax að loknum fundi leiðtoga Sýrlands og Líbanons sem haldinn yrði í Damaskus. Almenningur í Líbanon skiptist í tvo hópa í afstöðu sinni og fjölmenntu stuðningmenn Sýrlendinga á götum Beirút í dag. Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah-skæruliðahreyfingarinnar, sagðist leggjast gegn því að hersveitirnar hyrfu alfarið frá landinu. Hann sagði að bandarísk og líbönsk yfirvöld vildu skapa ringulreið í Líbanon í því skyni að fá ástæðu til alþjóðlegrar íhlutunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×