Erlent

Fylgdust með eigin örlögum

Farþegar um borð í þotu JetBlue flugfélagsins fylgdust skelfingu lostnir með eigin örlögum í beinni sjónvarpsútsendingu í gærkvöldi þegar vélin þurfti að nauðlenda eftir að lendingarbúnaður bilaði. Betur fór þó en á horfðist. Vélin, sem var af gerðinni Airbus A320, og á leiðinni til New York var með 140 farþega og sex manna áhöfn innanborðs. Skömmu eftir flugtak frá Burbank-flugvelli í Los Angeles kom í ljós að nefhjól vélarinnar var bilað og sneri þversum og tókst ekki að ná því aftur inn í vélina. Var ákveðið að snúa vélinni við þegar í stað og lenda henni á flugvellinum í Los Angeles og þurfti vélin að sveima yfir borginni í þrjár klukkustundir til að eyða eldsneyti. Skelfingu lostnir farþegarnir gátu horft á atburðinn og þar með eigin örlög í beinni sjónvarpsútsendingu inni í vélinni, en sem betur fer tókst lendingin ágætlega. Eldur kviknaði við nefhjólið en enginn slys urðu á fólki. Verið er að rannsaka hvers vegna bilunin varð í lendingarbúnaðinum. David Reinitz, einn farþega, segir að allir hafi orðið dálítið taugaóstyrkir. Hann hafi verið með myndavél með sér og kvatt kærustuna sína ef illa færi og þá hafi sessunautur hans kvatt fjölskyldu sína. Hann segir fólk ekki hafa tekið upp farsíma til að hringja heldur hafi það verið mjög agað hvað það hafi varað en hann hafi verið með stafræna myndavél og tekið kvikmyndir af því sem gerst hafi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×