Erlent

Danir safna fyrir fórnarlömbum

Stærsta landssöfnun Danmerkur hófst í morgun og er búist við að samanlagt framlag þjóðarinnar til fórnarlamba náttúruhamfaranna í Asíu fari yfir sem nemur tveimur milljörðum íslenskra króna. Miðað við íbúafjölda gefa hver Dani og Íslendingur yfir tífalt meira en hver Bandaríkjamaður. Alla vikuna hafa sjónvarps- og útvarpsstöðvar í Danmörku lagt málefninu lið. Áður en aðalsöfnunin hófst á sjónvarpsstöðinni TV2 klukkan átta í morgun var samanlagt framlag Dana komið í sem nemur einum komma sjö milljörðum íslenskra króna. Nú um hádegi var upphæðin komin í einn komma níu milljarða íslenskra króna og þar með hafa Danir jafnað síðasta söfnunarmet frá 1999, þegar safnað var vegna stríðsfórnarlamba á Balkanskaganum. Má því fastlega búast við að tveimur milljörðum verði náð áður en yfir lýkur á miðnætti í kvöld. Dagblaðið Berlingske Tidende hefur í dag eftir utanríkisráðherranum Per Stig Møller að Danir séu í þriðja sæti meðal landa Evrópusambandsins þegar litið er til söfnunarupphæðar á hvern íbúa. Hann segir þó að þetta sé ekki keppni, málefnið sé það sem skipti máli. Þannig vísar hann á bug umræðu um að Evrópa og Bandaríkin séu í keppni og ekki vill hann gagnrýna lágt framlag Bandaríkjamanna. Blaðið birtir lista yfir hæstu löndin og í efsta sæti tróna Ástralíumenn með um 2.800 íslenskar krónur á íbúa. Hver Norðmaður hefur gefið 2.400 krónur og hver Dani um þúsundkall. Eftir 150 milljóna króna framlag íslensku ríkisstjórnarinnar, sem kom söfnunarupphæð Íslendinga í 250 milljónir, gefur hver Íslendingur 850 krónur. Svíar hafa gefið 550 íslenskar krónur á íbúa en Bretar 120 krónur og Bandaríkjamenn 80 krónur. Landssöfnun Dana hófst rétt fyrir sjö í morgun þegar lest lagði af stað frá Álaborg áleiðis til Kaupmannahafnar þar sem hún kom nú rétt fyrir hádegi með fjárframlög og muni sem fólk mátti skutla um borð á leiðinni, en þeir verða svo seldir á uppboði. TV2 segir að minnsta kosti tíu milljónir íslenksra króna hafa safnast á leið lestarinnar í gegnum landið. Danski tónlistarbransinn leggur sitt af mörkum en í útsendingu í kvöld verður frumflutt lagið Hvor Små Vi Er eða Hvað við erum smá, sem samið var sérstaklega fyrir söfnunina. Ríkislögreglan birtir nýjar tölur um látna og saknaða á Netinu á hverjum degi og í gær lækkaði tala yfir þá Dani sem er saknað niður í 57 en sjö eru látnir. Nafnalisti var hins vegar tekinn af Netinu á miðvikudaginn þar sem nægar upplýsingar höfðu safnast. Sama aðferð hefur verið notuð í Noregi og Finnlandi en í Svíþjóð hafa stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir að gera nafnalista ekki opinberan. Í Danmörku, Noregi og Finnlandi fækkaði fólki á listanum fljótt eftir að þeir voru gerðir opinberir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×