Sport

FH sigraði á seiglunni

Leikur FH og Fram fór mjög rólega af stað og var fyrsta mark FH einnig fyrsta skot þeirra að marki. Atli Viðar Björnsson fór reyndar illa af ráði sínu á 17. mínútu eftir að hafa komist einn inn fyirr vörn Fram. Hann hefði átt að skjóta sjálfur en gaf þess í stað boltann á Ólaf Pál Snorrason sem var vissulega í góðu færi en rangstæður. Framarar áttu einnig sín færi og voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik. Markaskorari FH, Auðun Helgason, var reyndar nærri því að skora sjálfsmark stuttu eftir eigið mark en slapp með skrekkinn. Það leit út fyrir að FH-ingar ætluðu að gera út um leikinn er þeir fengu dæmda vítaspyrnu á 53. mínútu er Kristján Hauksson braut á Allan Borgvardt. Tommy Nielsen tók vítið en Gunnar Sigurðsson varði slaka spyrnu hans. Ekki fyrsta vítið sem Gunnar ver í sumar enda klárlega vítabani mótsins til þessa. Þess í stað jöfnuðu Framarar með góðri sókn en Þórhallur Dan Jóhannesson átti góða rispu upp vinstri kantinn og gaf beint á kollinn á Ríkharði Daðasyni sem skoraði gott mark. Eftir það færðist talsverð barátta í leikinn en svo fór að FH-ingar náðu að sigla fram úr á lokamínútum leiksins með tveimur mörkum. Þetta var langt í frá besti leikur FH í sumar en þeir gerðu það sem þurfti. Það virtist fremur kraftlaust framan af en hætti aldrei að spila sinn bolta og uppskáru eftir því í leikslok. Framarar reyndu hvað þeir gátu en sprungu einfaldlega á limminu á lokakafla leiksins. "FH er með hrikalega sterkt lið en mér fannst þeir ekkert betri en við í dag. Við vorum að gera betur en í undanförnum leikjum, vorum að berjast og þeir áttu í vandræðum með okkur. Hinsvegar refsa þeir fyrir hver einustu mistök og við gerðum þrjú í dag. Það þarf ekki mörg stig til að rífa sig frá botninum og það er bara skemmtileg barátta framundan," sagði Þórhallur Dan eftir leik. Auðun Helgason skoraði annan leikinn í röð og var ánægður með stigin þrjú. "Fullkomin hornspyrna frá Óla og ég náði að klára. Ég er ánægður með þessa þrautseigju í okkur. Við erum ekkert að spila neitt alltof vel og einbeitingin var ekki í fullu lagi. Við héldum þó áfram að skapa og náðum þremur stigum. Þetta var því góður sigur á frekar slökum degi. Framararnir voru erfiðir en við höldum áfram á beinu brautinni og vonandi klárum við þetta mót sem fyrst," Sagði Auðun Helgason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×