Erlent

Danir með hæsta tímakaup í Evrópu

Danir eru með hæsta tímakaup í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu evrópsku atvinnuveitendasamtakanna. Íslendingar eru í 20. sæti og eru þeir með lægsta tímakaup allra Norðurlandabúa. Mjög hefur dregið saman með ríkum og fátækum ríkjum álfunnar og er það meðal annars þakkað dvínandi áhrifum verkalýðsforystunnar. Þetta er í sjötta sinn sem samtökin reikna út tímakaup Evrópubúa. Niðurstöðurnar eru byggðar á tímakaupi rúmlega 30 mismundi starfa í þremur stærðargráðum fyrirtækja og er alls staðar miðað við gildandi tímakaup þann 1. febrúar. Af 48 löndum Evrópu er tímakaupið hæst í Danmörku. Næst kemur Sviss með 83 prósent af tímakaupi Dana og Norðmenn hafa 77 prósent af tímakaupi þeirra. Næstu norrænu frændur okkar eru Svíar í 9. sæti, Færeyingar eru í því 14., Finnar eru í 16. sæti og Íslendingar eru í 20. sæti og þar með lægstir á blaði Norðurlandaþjóða með 46 prósent af tímakaupi Dana. Með öðrum orðum: Tímakaupið hér er meira en helmingi lægra en í Danmörku. Í skýrslu atvinnuveitendanna kemur fram að bilið á milli hinna ríku og fátæku ríkja hefur minnkað mikið á síðustu árum. Þannig var tímakaupið í Danmörku 39 sinnum hærra en í Rúmeníu fyrir fjórum árum en í dag er það „aðeins“ 22 sinnum hærra. Á þessu tímabili hefur tímakaup Dana hækkað um 18 prósent en tímakaup Rúmena um 115 prósent.  Evrópusamtök atvinnuveitenda benda á að meiri samfella sé á atvinnumarkaði Evrópu nú en áður og meiri hreyfanleiki vinnuafls sem dragi úr launamun á milli landa. Hin fátækari ríki hafi fjárfest í atvinnulífinu og það leiði til hækkandi kaups, auk þess sem samtökin telja að dvínandi áhrif verkalýðsfélaga dragi úr launamun á milli einstakra ríkja Evrópu þar sem heildarkjarasamningar leiði til lægri launa en einstaklingssamningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×