Sport

Björn yngsti atvinnumaðurinn?

Að undanförnu hafa stjórnendur hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen sýnt mikinn áhuga á að fá einn efnilegasta leikmann ÍA, Björn Jónsson, til liðs við félagið. Björn, sem er fæddur 1990, leikur með 3. flokki ÍA og er eins og áður sagði einn  af efnilegustu knattspyrnumönnum okkar Íslendinga. Hann hefur t.d. verið valinn í úrtakshóp í sínum árgangi vegna vals í drengjalandsliðið og svo gæti farið að Björn færi utan til Heerenveen strax í sumar og yrði hann þar með yngsti atvinnumaður Íslands frá upphafi. Til marks um áhuga hollenska liðsins á því að fá Björn til félagsins hefur hann t.a.m. tvívegis heimsótt félagið og dvaldi hann m.a. í herbúðum þess um sl. páska og hrifust forráðamenn Heerenveen mjög af hæfileikum hans. Heerenveen, sem er eitt af sterkustu knattspyrnufélögum Hollands, hefur getað sér gott orð fyrir gott unglingastarf og alið af sér sæg góðra knattspyrnumanna og nægir þar að nefna leikmenn eins og Ruud Van Nistleroy, Jon Dal Tomasson, auk Svíanna Markus Allbäck og Erik Edman. Undanfarin ár hefur félagið jafnframt lagt mikla rækt við aðallið félagsins og hefur átt sér stað gríðarleg uppbygging hjá félaginu undanfarin ár. Ef af því yrði að Björn gengi til liðs við félagið yrði hann annar leikmaður ÍA á skömmum tíma sem mundi semja við félagið því fyrir er einmitt Skagamaðurinn Arnór Smárason. Arnór, sem er fæddur 1988, hefur verið á mála hjá Heerenveen síðan í janúar 2004 og leikið bæði með U-17 og U-19 ára unglingaliðum félagsins. Arnór, sem á að baki nokkurn fjölda leikja með unglingalandsliðum Íslands og skorað í þeim 2 mörk, hefur á þeim tíma sem hann hefur verið hjá félaginu skipað sér á bekk með efnilegustu leikmönnum félagsins, sem þó státar af miklum fjölda unglingalandsliðsmanna frá löndum eins og Danmörku, Austurríki, Póllandi, Króatíu og Hollandi. Unglingalið félagsins eru ávallt í fremstu röð í Hollandi og veita stórliðunum Ajax, Feyernoord og PSV Eindhoven harða keppni á þeim vettvangi. Það verður því mjög spennandi að fylgjast með framgangi mála hjá þeim félögum á næstunni. Þessi frétt birtist á www.ia.is/kia



Fleiri fréttir

Sjá meira


×