Sport

Tveir hörkuleikir í Egilshöllinni

Fréttablaðið fékk Leif Garðarsson til að spá í undanúrslitaleiki deildabikars karla í knattspyrnu sem fara fram í dag í Egilshöllinni. Skaginn mætir Þrótti og Breiðablik spilar við KR. Undanúrslit deildabikars karla í knattspyrnu fara fram í Egilshöllinni í dag. ÍA og Þróttur mætast klukkan 17.00 og tveimur tímum síðar hefst leikur KR og Breiðabliks. 1. deildar lið Breiðabliks kom mjög á óvart með því að slá út Íslands- og deildabikarmeistara FH-inga í vítaspyrnukeppni í átta liða úrslitunum en þau fjögur lið sem komust í undanúrslitin eru einmitt tvö efstu liðin úr hvorum undanriðli. Fréttablaðið heyrði í Leifi Garðarssyni, aðstoðarþjálfara FH-liðsins, og fékk hann til þess að spá í leiki dagsins. „Skagamenn hafa misst nokkra lykilmenn frá því í fyrra en þeir eru alltaf að fá inn unga og efnilega leikmenn sem hlaupa í skörðin. Skagamenn voru með frábæran 2. flokk í fyrra sem við í FH töpuðum sem dæmi fyrir í úrslitaleik á Íslandsmóti undir 23 ára liða. Það er alveg ljóst að þar eru strákar sem geta tekið við keflinum í meistaraflokksliðinu,“ segir Leifur um breytingar á Skagaliðinu. „Þróttararnir eru eins og öll lið sem Ásgeir er með, að reyna að spila fótbolta þó að þeir kannski svæfi svolítið andstæðinginn með rólegu spili aftarlega á vellinum. Miðað við það sem ég hef séð til Valsmanna kom það mér svolítið á óvart að Þróttarar skyldu vinna þá í átta liða úrslitunum. Það sýnir að þeir hafa eitthvað til brunns að bera. Ég held að hvorugt þessara liða sem eru að koma upp, Þróttur og Valur, standi hinum átta liðunum svo langt að baki. Ég held að þetta verði mjög jafn leikur en kannski maður segi að hefðin sigri og Skaginn fari áfram,“ segir Leifur. Leifur ber taugar til síns gamla félags en hefur einnig hrifist af liði Breiðabliks í vetur.  Bjarni Jóhannesson og lærisveinar hans slógu FH-ingana einmitt út úr keppni í  átta liða úrslitunum og segir Leifur það hafa verið sanngjörn úrslit. „Breiðablik var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik í okkar leik. Blikarnir voru viljugir, vinnusamir og duglegir og það er oft það sem skiptir höfuðmáli í þessu. Ég vona fyrir Bjarna hönd að þeim gangi vel í sumar. Þeir mæta þarna mörgum af mínum gömlu lærisveinum í KR sem hafa verið að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Auðvitað vill maður sínum afkvæmum vel,“ segir Leifur, sem þjálfaði yngri flokka hjá KR fyrir nokkrum árum áður en hann hélt í Hafnarfjörðinn. „Það hefur kannski verið beðið eftir því að Blikarnir gerðu eitthvað á sig í þessum undirbúningsleikjum en ef þeir mæta með sama dugnað og kraft og þeir mættu með í fyrri hálfleik á móti okkur geta þeir strítt KR-ingum. Ég get því alveg séð fyrir mér tvo hörkuleiki þó að maður hallist þó að því að Akranes og KR spili úrslitaleikinn. Þetta verður örugglega fín skemmtun og ég er viss um að menn hafa ekkert betra að gera seinnipartinn en að fara á þessa leiki,“ segir Leifur að lokum og það er alveg óhætt að taka undir orð hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×