Sport

Hjarta mitt á heima hjá Chelsea

Eiður Smári Guðjohnsen varð í gær fyrsti Íslendingurinn til að vinna enska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir að úrvalsdeildin var sett á laggirnar. Þá vill knattspyrnustjórinn Jose Mourinho vera hjá Chelsea eins lengi og mögulegt er vegna þess að hann elskar félagið. „Þetta er sérstakur hópur sem ég er með hér hjá Chelsea og hann á þennan titil innilega skilinn,“ sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir að liðið tryggði sér enska meistaratitilinn í fyrsta skipti í 50 ár í gær. Þá sigraði liðið Bolton á útivelli með tveimur mörkum gegn engu og var það Frank Lampard sem skoraði bæði mörkin, það síðara hans átjánda á leiktíðinni. Komst hann þannig upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen á lista markahæstu manna Chelsea í úrvalsdeildinni. „Það getur enginn haldið öðru fram en að við séum verðskuldaðir sigurvegarar. Ég er með frábært fólk með mér, leikmenn og þjálfara, og ég vil vera hjá Chelsea eins lengi og ég get. Hér á hjarta mitt heima,“ bætti portúgalski þjálfarinn við áður en hann skálaði í kampavín við blaðamenn. Veðbankar voru ekki lengi að taka við sér og aðeins tveimur mínútum eftir að flautað hafði verið til leiksloka sendi breski veðbankinn William Hill frá sér tilkynningu þar sem kom fram að Chelsea væri talið langlíklegastir til að vinna titilinn á næsta ári. Hill metur möguleika Chelsea vera 10 á móti 11 en þar á eftir koma Arsenal og Manchester United, bæði með 4 á móti 11. Lampard, sem af mörgum er talinn eiga hvað mestan þátt í velgengni Chelsea í ár, átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar í leikslok. „Loksins, loksins er titillinn kominn í hús. Við eigum þetta skilið, stuðningsmennirnir eiga þetta skilið. Þeir hafa verið stórkostlegir í allan vetur. Eftir vonbrigðin gegn Liverpool á heimavelli í vikunni töldum við að besta leiðin til að bæta þeim upp frammistöðuna þar væri að sigra hér í Bolton. Við gátum það og nú er titillinn okkar. Nú ætlum við að halda áfram og vinna Liverpool á þriðjudag,“ sagði Lampard, sem greinilega er ekki enn orðinn saddur. Fyrirliði Chelsea og leikmaður ársins í Englandi, John Terry, sagði tilfinninguna vera þá bestu sem hann hefði nokkru sinni upplifað. „Við erum búnir að bíða svo lengi eftir þessum áfanga og nú loksins höfum við náð honum. Þetta er ótrúlegt, miklu betra en ég átti von á,“ sagði Terry. Spurður hversu mikinn þátt Jose Mourinho ætti í titlinum sagði Terry hann vera stóran. „Hann er frábær og hefur gefið þessu félagi ótrúlega mikið.“ Mourinho segir að margir samverkandi þættir hafi leitt til þeirrar velgengni sem Chelsea hefur notið á leiktíðinni. „Hugarfarið og þráin sem allir þeir sem að félaginu koma búa yfir hefur mest að segja. Við berjumst saman, við vinnum saman og við grátum saman. Og í dag fögnum við saman,“ sagði Mourinho.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×