Erlent

Íhaldsmenn ríða á vaðið

Íhaldsmenn kynntu í gær stefnuskrá sína fyrir bresku þingkosningarnar sem haldnar verða 5. maí. Boðaðar eru takmarkanir á fjölda innflytjenda, auknar fjárveitingar til lögreglu og betri heilsugæslu. Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar kynntu einnig hluta af stefnumálum sínum í gær. Segja má að kosningabaráttan í Bretlandi hafi formlega hafist í gær þar sem drottningin leysti þingið frá störfum. Íhaldsflokkurinn kynnti stefnuskrá sína í gær og reið þar með á vaðið. Michael Howard, leiðtogi þeirra, var hróðugur á svip þegar hann veifaði þunnum bæklingi þar sem stefnumálin voru útlistuð. "Við viljum hafa stefnuskrána stutta svo að fólk nenni að lesa hana," sagði hann við blaðamenn. Íhaldsmenn hyggjast sérstaklega beita sér fyrir sex málum nái þeir kjöri: fjölgun lögreglumanna, betri og hreinni sjúkrahúsum, lægri sköttum, aga í skólum, takmörkun á fjölda innflytjenda og ríkari ábyrgðarskyldu stjórnmálamanna. Þessi mál setja þeir fram undir kjörorðinu "Hugsar þú það sem við hugsum?". Það er ekki síst harðari stefna í innflytjendamálunum sem íhaldsmenn telja sér til tekna en þeir leggja til að svipað kerfi verði tekið upp og Ástralir styðjast við þar sem aðeins tilteknum fjölda útlendinga er heimilað að flytja til landsins. Talsmenn hinna stóru flokkanna gagnrýndu stefnuskrána harðlega. Charles Kennedy, leiðtogi frjálslyndra sagði að almenningur hefði þegar lýst því yfir að hann vildi ekki að íhaldsmenn væru við stjórnvölinn í mennta- og félagsmálum. Alan Milburn, kosningastjóri Verkamannaflokksins, tók í svipaðan streng. "Þetta er ný stefnuskrá fyrir sama gamla Íhaldsflokkinn. Hún sýnir að þeir standa ekki fyrir tækifæri heldur forréttindi." Frjálslyndir demókratar lýstu því yfir að þeir myndu sjá til þess að 21.000 nýir kennarar yrðu ráðnir á kjörtímabilinu næðu þeir kjöri. Þá kynnti Verkmannaflokkurinn stefnu sína í menntamálum og áætlanir í efnahagsmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×