Erlent

Á þriðja tug myrtir í Írak

Á þriðja tug manna létust í árásum vígamanna í Írak í gær. Ofbeldisverk vígamanna eru nú í algleymingi, tæpum tveimur vikum áður en Írakar ganga að kjörborðinu og velja stjórnlagaþing sem semur nýja stjórnarskrá Íraks og skipar bráðabirgðastjórn fram að nýjum kosningum. Vígamenn skutu átta íraska þjóðvarðliða til bana við vegatálma og átta manns létust í bílsprengjuárás á lögreglustöð norður af Bagdad. Vígamenn tóku tvo sjíamúslima þegar þeir komu frá bandarískri herstöð nærri Ramadi og myrtu þá með því að skera hausinn af þeim. Þá fundust lík fjögurra manna, þriggja óbreyttra borgara og írasks hermanns í borginni. Öll voru sökuð um samstarf við hernámsliðið. "Þetta eru rotnandi leifar tveggja sjíamúslima sem komu til borgarinnar Ramadi til að styðja óvininn í setuliðinu. Örlög hvers útsendara verða dauði," sagði í skilaboðum á líkum sjíamúslimanna tveggja sem voru afhöfðaðir. Í gær var hafist handa við að skrá Íraka sem ekki eru búsettir í Írak á kjörskrá. 1,2 milljónir Íraka sem búa erlendis, alls í 14 löndum, hafa kosningarétt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×