Sport

Fjögur gull í frjálsum í gær

Íslenska íþróttafólkið hélt áfram að safna að sér verðlaunum á þriðja keppnisdegi Smáþjóðaleikanna. Ísland vann alls 17 verðlaun í gær og hafa því 18 gull og alls 49 verðlaun komið í hlut Íslendinga á leikunum. Það gekk vel á frjálsíþróttavellinum í gær og fjögur íslensk gull litu dagsins ljós. Björgvin Víkingsson vann glæsilegan sigur í 400 metra grindahlaupi og varð þar á undan tveimur Kýpverjum. Þórey Edda Elísdóttir vann öruggan sigur í stangarstökki, stökk 30 sentímetrum hærra en silfurhafinn frá Kýpur og átti auk þess þrjár góðar tilraunir við eigið Norðurlandamet. Óðinn Björn Þorsteinsson vann gull þegar hann kastaði kúlunni 17,15 metra og vann með miklum yfirburðum en Jón Arnar Magnússon varð í fjórða sæti. Þetta eru önnur verðlaun Óðins á leikunum, hann hlaut silfur í kringlukasti í fyrradag. Jón Arnar vann síðan brons þegar hann stökk 7,30 metra í langstökki og Vilborg Jóhannsdóttir vann silfur í sleggjukasti. Ásdís Hjálmsdóttir var aðeins fimm sentimetrum frá fimm daga gömlu Íslandsmeti sínu í spótkasti þegar hann vann gull í gær en í öðru sæti varð Vigdís Guðjónsdóttir. Þetta voru önnur verðlaun Ásdísar en hún vann brons í kúluvarpi á þriðjudaginn. Hin 15 ára gamla Íris Anna Skúladóttir vann einnig sín önnur verðlaun þegar hún bætti bronsverðlaunum í 1.500 metra hlaupi við gullið sem hún vann svo eftirminnilega í fyrrakvöld. Ragnheiður Ragnarsdóttir vann eina gullið í einstaklingskeppni sundsins í gær þegar hún vann 50 metra skriðsundið. Ísland vann silfur (Erla Dögg Haraldsdóttir) og brons (Helena Ósk Ívarsdóttir) í 200 metra bringusundi kvenna, Jakob Jóhann Sveinsson vann silfur í 200 metra bringusundi, strákasveitin vann silfur í 4x100 metra fjórsundi og þá vann Sigrún Brá Sverrisdóttir brons í 200 metra skriðsundi. Íslandsmet hjá Önju Hitt gull dagsins vann kvennasveit í 4x100 metra fjórsundi en Anja Ríkey Jakobsdóttir gerði sér lítið fyrir og bætt þar íslandsmetið í 100 metra baksundi í fyrsta sprettium. Anja synti á 1.05.29 mínútum og bætti gamla metið um 19/100 úr sekúndu. Kvennalandsliðið í júdó vann gull í liðakeppninni en strákarnir urðu að sætta sig við fjórða sætið. Kvennasveitin skipa þær Gígja Guðbrandsdóttir og Margrét Bjarnadóttir en Margrét vann þarna sitt annað gull á leikunum. Kvennalandsliðið í körfubolta varð að sætta sig við silfur eftir 48-57 tap fyrir Lúxemborg í úrslitaleik. Birna Valgarðsdóttir var stigahæst með 19 stig og Helena Sverrisdóttir skoraði 11 stig. Karlaliðið vann sinn annan leik, nú nauman 73-69 sigur á Lúxemborg. Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur með 14 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×