Erlent

Íslendingar taka þátt í Galíleó-verkefninu

Gervihnettinum GIOVE A skotið á loft í morgun.
Gervihnettinum GIOVE A skotið á loft í morgun. MYND/AP

Fyrsta gervihnettinum í sérstöku verkefni Evrópusambandsins, sem sagt er vera mótsvar Evrópu við GPS-staðsetningartækni Bandaríkjamanna, var skotið á loft í morgun. Íslendingar taka þátt í verkefninu sem kostar hátt í þrjú hundruð milljarða íslenskra króna.

Verkefnið, sem gengur undir nafninu Galíleó, er samstarfsverkefni Evrópusambandsins og nokkurra annarra ríkja, en auk Íslands koma Kína, Indland, Ísrael, Marokkó, Sádi Arabía og Úkraínu að verkefninu. Gervihnötturinn, sem skotið var upp í Kazakstan í morgun, er sá fyrsti af að minnsta kosti fjórum sem settir verða á braut um jörðu en næsta gervihnetti verður skotið upp í vor og tveimur í viðbót svo árið 2008. Þegar gervihnötturinn kemst á braut um jörðu munu frumeindaklukkur og merkjasendingar verða prófaðar, en frumeindaklukkur eru nákvæmustu tímamælingatæki sem smíðuð hafa verið.

Galíleó-verkefnið er sagt vera mótsvar Evrópu við GPS-staðsetningartækni Bandaríkjamanna sem byggist á móttöku merkja frá gervitunglum. Gervihnattakerfið gerir að verkum að nákvæmni í staðsetningu skipa, fólks og farartækja eykst til muna. Tvær eftirlitsstöðvar hafa verið settar upp hér á landi sem tengjast kerfinu, önnur í Reykjavík en hin á Egilsstöðum, en alls eru þrjátíu og fjórar slíkar stöðvar í Evrópu ásamt fjórum móðurstöðvum. Kostnaður við Galíleó-verkefnið er sagður nema rúmlega tvö hundruð og sjötíu milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×