Innlent

Allt að áttatíu vinnuslys á mánuði

Á milli sextíu og fimm og áttatíu vinnuslys verða við Kárahnjúka í hverjum mánuði. Í þriðjungi tilfella missa menn einn dag eða fleiri úr vinnu. Yfirlæknir vinnusvæðisins telur þessa slysatíðni eðlilega miðað við aðstæður.

Við sögum fyrr í vikunni frá harðsnúnum byggingaverkamönnum sem steypa tvöhundruð metra háan og snarbrattan stífluvegg í fimbulkulda og skammdegi. Þótt aðstæður þarna í mesta gljúfri landsins séu óvenju hrikalegar má segja að öll vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar teljist í hættulegri kantinum. Stórvirkar vinnuvélar eru á fleygiferð allan sólarhringinn, járnbrautarlestir þjóta fram og til baka um tugkílómetra löng jarðgöng inn að risaborum, og stöðvarhúsið iðar af lífi í viðamikilli hellahvelfingu djúpt inni í fjalli. Það er því ekki að ástæðulausu að sex sjúkrabílar eru hafðir til taks ásamt sautján manna sveit lækna, hjúkrunar- og björgunarfólks á sérstakri heilsugæslu og slysadeild Kárahnjúka.

Þorsteinn Njálsson segir að þó skráning slysanna sé há þá sé henni betur sinnt á Karahnjúkum en við sambærileg verkefni áður. Hann segir að á milli sextíu og fimm og áttatíu vinnuslys verði við Kárahnjúka í hverjum mánuði, í þriðjungi þeirra missi menn einn dag eða fleiri úr vinnu.

Þorsteinn segir að helsxt megi rekja slysin til hálkunnar á svæðinu og ekki síst kuldans. Einnig sé verið að vinna við stífluna þar sem þungir hlutir eru auk þess sem gangavinnan sé hættuleg vegna grjóthruns.

Hann segir byggingaraðila standa vel að slysavörnum og vel sé búið að vinna í slysavörnum af hálfu byggenda.

Þorsteinn segir að Kárahnjúkasvæðið jafnist á við læknishérað á landsbyggðinni. Mannfjöldinn á öllu vinnusvæðinu sé um 1900 manns og þarna sé fólk á öllum aldri. Heimsóknir á heilsugæsluna séu milli 750 og 800 á mánuði.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×