Erlent

Franskir fjölmiðlar gagnrýna stjórnvöld

Franskir fjölmiðlar eru sammála um að engar töfralausnir séu í boði vegna óeirðanna sem hafa geisað í Frakklandi síðustu 11 kvöld. Franskir fjölmiðlar segja stjórnmálamenn hafa brugðist fólki í úthverfunum síðastliðna fjóra áratugi.

"Frakkland greiðir nú gjaldið fyrir hroka fortíðar" segir í Le Figaro. "Í úthverfunum má sjá hvernig stjórnmálamenn hafa brugðist í fjóra áratugi" Leiðarahöfundur Liberation skrifar: "Óeirðirnar eru afleiðing ótrúlegrar umræðu um réttarríkis og innra öryggi, sem hefur undanfarna áratugi einkennst af lýðskrumi fyrir kosningar og svo áhugamálum hvers ráðherra fyrir sig." Og í Les Echos er stjórnmálamönnum líka kennt um. Í stað þess að ráðast að rót vandans hafi þeir ávallt verið fljótir til að slökkva elda og svo sópað öskunni undir teppi, en í raun aldrei tekið til.

Fyrsta fórnarlamb mótmælanna í Frakklandi lést í dag: Sextugur karlmaður sem barinn var til óbóta á föstudaginn var dó á sjúkrahúsi síðdegis.

Elleftu nóttina í röð létu þúsundir ungmenna ófriðlega í úthverfum Parísar. Kveikt var í fjórtán hundruð bifreiðum, nærri fjögur hundruð manns handtekin og í fyrsta sinn var skotið á lögreglumenn. Í hverfinu Grigny særðust tveir lögreglumenn þegar gengi ungmenna gerði þeim fyrirsát, eftir því sem talsmaður lögreglunnar sagði. Annars staðar var kastað steinum og bensínsprengjum. Strætisvagnar ganga ekki eftir áætlunum og lestarkerfið er að hluta í lamasessi. Á tímabili lágu niður ferðir á Charles-de-Gaulle flugvöllinn sem er í miðju óeirðasvæðisins. Talsmenn lögreglu krefjast útgöngubanns.

Átökin voru víðar, í Marseille, Saint-Etienne, Toulouse, Metz og Lille var ástandið slæmt. Alls staðar voru það ungir afkomendur innflytjenda sem voru mest áberandi, atvinnulaus og vonlaus ungmenni af norður-afrískum uppruna sem búa í úthverfum sem einkennast af fjörutíu ára gömlum háhýsum sem reist voru til að hýsa farandverkamenn sem komu flestir frá fyrrverandi nýlenduríkjum Frakka í Afríku.

Áratugum síðar finnst íbúum hverfanna lítið hafa breyst, þeir eru ekki enn þá orðnir hlutar fransks samfélags þó að meirihlutinn sé borinn og barnfæddur í Frakklandi. Atvinnuleysi er mikið og ljóst er að reiðin hefur verið orðin mikil þegar loksins sauð yfir fyrir tæpum hálfum mánuði. Og þegar eldarnir loga virðist sem enginn geri sér almennilega grein fyrir því hvernig hægt er að slökkva þá, eða hvar á að hefjast handa við að leysa vandann.

Nikolas Sarkozy, innanríkisráðherrann sem kallað hefur mótmælendur og óeirðaseggir pakk og uppskorið skammir fyrir, segir að koma verði á lögum og reglu í úthverfunum. Hann sagði það skyldu allra sjá til þess að óeirðunum muni linna, bæði lögreglunnar og þeirra sem taka þátt í óeirðunum. Þær yrðu að stoppa og sem fyrst.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×