Erlent

Beittu táragasi þegar landamæri voru opnuð

MYND/AP

Pakistanskir lögreglumenn þurftu að beita táragasi til að dreifa hundruðum íbúa í Kasmír sem reyndu að komast yfir landamæri Indlands og Pakistans þegar þau voru opnuð í morgun vegna jarðskjálftans sem skók svæðið fyrir tæpum mánuði.

Fólkið krafðist þess að fá að fara yfir landamærin til að vitja ættingja sinna í indverska hluta Kasmír en lögregla hleypti af skotum og beitti táragasi til að dreifa mannfjöldanum. Indverjar og Pakistanar sömdu um það í síðustu viku að opna landamærin í Kasmír til þess að liðka um fyrir hjálparstarfi í Pakistan, en landið varð mjög illa úti í skjálftanum 8. október.

Til stóð að opna landamærin á fimm stöðum en þau voru aðeins opnuð á einum stað í morgun og þeir einu sem fengu að fara yfir þau voru bílar frá Indlandi með hjálpargöng handa hinum þurfandi. Ástæðan fyrir þessari varfærni er sú að Indverjar óttast að herskáir aðskilnaðarsinnar í pakistanska hluta Kasmír nýti sér ástandið og geri árásir í Indlandi, en aðeins er rúm vika síðan mannskæðar árásir voru gerðar í Nýju-Delí í Indlandi.

Yfirvöld í Indlandi segja þó að landamærin verði opnuð á tveimur öðrum stöðum í vikunni en útlit er fyrir að íbúar í Kasmír beggja vegna landamæranna þurfi að bíða í tíu daga þar til þeir geta vitjað ættingja sinna hinum megin mæranna. Hermenn vinna að því að laga vegi sem skemmdust í hamförunum og fjarlægja jarðsprengjur á svæðinu.

Indverjar og Pakistanar hafa lengi deilt um yfirráð í Kasmír en opnun landamæranna þykir merki um batnandi sambúð þjóðanna. Hafa háttsettir menn beggja vegna landamæranna lýst yfir ánægju með viðburðinn og segja daginn sögulegan. Það skyggir hins vegar á gleðina hversu margir þjást eftir jarðskjálftann í Pakistan, en talið er að þrjár milljónir manna í landinu séu heimilislausar.

Hjálparstofnanir hafa varað við því að ef þjóðir heims herði sig ekki í hjálparstarfinu kunni þúsundir að deyja úr kulda og vosbúð þegar vetur skellur á, en Veðurstofa Pakistans spáir hörðum vetri á hamfarasvæðunum og að hitastig verði töluvert lægra og úrkoma meiri en í meðalári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×