Erlent

Þreifingar í Þýskalandi

Aðstoðarmenn Gerhards Schröder, fráfarandi kanslara Þýskalands úr Jafnaðarmannaflokknum, og Angelu Merkel, formanns Kristilegra demókrata, sýndu engin merki um vilja til málamiðlunar í deilunni um það hvort þeirra ætti að verða kanslari er forystumenn beggja flokka settust niður í Berlín í gær til að halda áfram þreifingum um hugsanlegt stjórnarsamstarf. Talsmenn flokkanna sögðu viðræðurnar að svo komnu máli aðeins myndu snúast um frekari þreifingar um stefnulega snertifleti, einkum og sér í lagi að því er varðar ríkisfjármálin. Ekki liggur fyrir enn nein ákvörðun um að flokkarnir fari út í formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Merkel sagði í gær að "mörg skref" yrði að stíga enn áður en til slíks kæmi. Meðal skilyrða sem hún hefur sett fyrir því er að Schröder og hans menn sætti sig við að hún, sem leiðtogi stærsta þingflokksins, hefði tilkall til þess að leiða slíka ríkisstjórn. Í þýskum fjölmiðlum eru kenningar um að hugsanleg lausn á "kanslaraspurningunni" kunni að felast í því að bæði Schröder og Merkel víki fyrir þriðja manni. Sá gæti orðið Christian Wulff, vinsæll forsætisráðherra Neðra-Saxlands úr flokki Merkel. Önnur lausn er sögð geta falist í því að Schröder og Franz Müntefering, formaður SPD, hefðu stólaskipti og Müntefering yrði varakanslari í stjórn sem einhver annar CDU-maður en Merkel færi fyrir. Þessi síðarnefnda tilgáta var tíunduð í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung í gær, en Klaus-Uwe Benneter, framkvæmdastjóri SPD, vísaði henni á bug sem "hreinum getgátum". "Stefnumál okkar eru samtvinnuð leiðtoga okkar, Gerhard Schröder - það er ekki hægt að skilja þau að," sagði hann. Báðir aðilar hafa sagst eiga von á því að þreifingaviðræður haldi áfram í næstu viku, en þá verða loks endanleg úrslit þingkosninganna ljós, þar sem á sunnudag verður kosið í því eina kjördæmi þar sem fresta þurfti kosningunum vegna andláts eins frambjóðandans. Skoðanakannanir benda þó ekki til að úrslitin úr þessu kjördæmi í Dresden breyti neinu um valdahlutföllin milli stóru flokkanna á þingi, þar sem CDU hefur þremur fulltrúum fleiri en SPD.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×