Erlent

Engin sprengja í töskunni

Breska lögreglan handtók meintan hryðjuverkamann á flugvellinum í Manchester í morgun. Beita þurfti rafmagnsbyssu til að yfirbuga manninn sem veitti mikla mótspyrnu við handtökuna. Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir við flugvélastæðin framan við flugstöðina í morgun. Lögreglan mætti þegar á staðinn en maðurinn veitt svo harkalega mótspyrnu við handtökuna að hún þurfti á endanum að nota rafmagnsbyssu til að yfirbuga hann. Sprengjusveit var kvödd á staðinn sem sprengdi ferðatösku sem maðurinn var með í loft upp undir eftirliti. Engin sprengja var í henni. Flugvellinum var lokað á meðan á þessu stóð og nokkur seinkun varð á flugi, en meira en fimmtíu þúsund farþegar fara um völlinn á degi hverjum. Bifreið í eigu hins grunaða er nú til rannsóknar, en eftir hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum í júlí þar sem fimmtíu og tveir létu lífið, hefur allt eftirlit, einkum á flugvöllum og lestarstöðvum, verið aukið mjög. Eftir yfirheyrslur dagsins segir lögreglan að maðurinn sé ekki lengur grunaður um hryðjuverk, heldur er hann talinn vanheill á geði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×