Erlent

Ætlaði að festa pakkann á vélina?

Breska lögreglan handtók grunaðan hryðjuverkamann á flugvellinum í Manchester í morgun. Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir við flugvélastæðin framan við flugstöðina í morgun. Lögreglan mætti þegar á staðinn en maðurinn veitt svo harkalega mótspyrnu við handtökuna að hún þurfti á endanum að nota rafmagnsbyssu til að yfirbuga hann. Sprengjusveit var kvödd á staðinn sem sprengdi pakka sem maðurinn var með í loft upp undir eftirliti. Samkvæmt fréttavef BBC virðist sem maðurinn hafi ætlað að koma pakkanum fyrir á skrokki einnar flugvélarinnar sem beið á stæðinu. Ekki hefur verið gefið upp hvort um sprengju var að ræða eða ekki. Flugvellinum var lokað á meðan á þessu stóð og nokkur seinkun varð á flugi en meira en fimmtíu þúsund farþegar fara um völlinn á degi hverjum. Bifreið í eigu hins grunaða er nú til rannsóknar en eftir hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum í júlí, þar sem fimmtíu og tveir létu lífið, hefur allt eftirlit, einkum á flugvöllum og lestarstöðvum, verið aukið mjög. Maðurinn er í haldi og verður yfirheyrður í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×