Innlent

Jarðgöng er eina leiðin

"Við förum fram á öruggar samgöngur á svæðinu og ég sé ekki að þær verði tryggðar öðruvísi en með göngum," segir Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Bolungarvík og formaður Almannavarnarnefndar bæjarins. Í ályktun sem fundurinn samþykkti segir að um 600 til 700 ökutæki fara um Óshlíð daglega og oft hafi legið við stórslysi vegna grjóthruns og snjófljóða. Því séu margir óttaslegnir og áhyggjufullir. Nefndin skorar á stjórnvöld að tryggja öryggi vegfaranda og ráða bót á þessu ástandi til frambúðar. En ef svo fer að ráðist verður í gangagerð á svæðinu má við því búast að deilt verði um þær hugmyndir sem uppi eru því sitt sýnist hverjum. Göng frá Bolungarvík alla leið til ÍsafjarðarPálína Vagnsdóttir frá Bolungarvík fer fyrir hópi manna sem safnar undirskriftum á lista þar sem skorað er á stjórnvöld að þau beiti sér fyrir gerð jarðganga frá Syðridal og inn í Vestfjarðargöng í Botnsdal en þá lægi nánast öll leiðin frá Bolungarvík til Ísafjarðar um göng. "Við erum komin með vel á fjórtánda hundrað manna á listann hjá okkur," segir Pálína. "Þó við mælum með þessari leið erum við opin fyrir öðrum möguleikum," bætir hún við. Hún viðurkennir þó að þessi göng komi Hnífsdælingum ekki sérlega vel. Hún segir ennfremur að leiðin um Óshlíð geti engan veginn verið lausn til framtíðar. "Það er ekki nóg með að víða sé hætta á grjóthruni og snjóflóðum heldur grefur sjórinn stöðugt undan honum," útskýrir hún. Elías Jónatansson, forseti bæjastjórnar, segir hins vegar að þessi kostur sé afar kostnaðarsamur. Einnig myndi þetta lengja verulega leiðina til Ísafjarðar. Þar að auki sé oft á tíðum snjóflóðahætta í Syðridal sem stofna myndi vegfarendum í hættu.   Göng frá Hnífsdal til BolungarvíkurKristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, telur hins vegar best að gera jarðgöng frá Seljadal og til Óss en þá lægi nánast öll leiðin frá Hnífsdal til Bolungarvíkur um göng. "Ég myndi hins vegar sætta mig við jarðgöng frá Einbúa að Ósi svona í fyrsta skrefi og svo kæmu ein til tvenn önnur göng á svæðinu í framhaldi af því," segir Kristinn H. "Með þessu móti mætti gera þetta í áföngum; taka hættulegasta hlutan fyrst og svo koll af kolli en hættan er þá að seinni áföngum verði frestað í það óendanlega," segir Kristinn. Hann hefur sjálfur kynnst hættunni á svæðinu en hann var einn þeirra sem kom að nýföllnu grjóti á miðjum vegi undir Óshlíðinni síðastliðinn laugardag. Segir Sjálfstæðismenn í Bolungarvík flýja umræðunaSoffía Vagnsdóttir, sem sæti á í bæjarstjórn Bolungarvíkur og systir Pálínu, lagði hart að sveitarstjórnarmönnum á Fjórðungsþingi Vestfjarða að álykta um gangagerð á þessari samgönguæð Bolungarvíkur. Hún segir málflutning sinn hafa fallið í fremur grýttan jarðveg. "Það er svo undarlegt að sveitungar mínir úr Sjálfstæðisflokknum vildu frekar þæfa málið en að tala um það," segir Soffía. "Það er sem þeir telji að umræðan geri ímynd svæðisins neikvæða en þetta snýst ekki um ímynd heldur veruleika sem við verðum að glíma við og hvernig gerum við það ef við ræðum ekki málin," bætir hún við. Elías Jónatansson, forseti bæjarstjórnar, vísar þessu á bug. "Þetta er eitt almesta hagsmunamál Bolungarvíkur og ég hef aldrei óttast að berjast fyrir því eins og sjá má á greinarskrifum mínum. Það var heldur engin efnislegur ágreiningur á Fjórðungsþinginu en hins vegar fannst okkur að greinargerð sem hún vildi hafa með bókuninni ekki eiga heima þar," segir hann. Pólitískt málKristinn H. Gunnarsson segir að þessi mál verði tekin til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi sem haldinn verður á þriðjudag. Hann lagði fram fyrirspurn til Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra í vor til að kanna viðhorf hans til jarðganga. "Honum þótti þá málið ekki aðkallandi og ég var ekki kátur með það því við þetta verður ekki unað," segir Kristinn. Í svari Sturlu segir að leita þurfi allra leiða til að tryggja uppbyggingu vegarins um Óshlíð og að vel komi til álita að gera það með jarðgöngum. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslyndaflokksins, segir að hann muni leggja fram þingsályktunartillögu um jarðgöng um Óshlíð strax í upphafi næsta þings. Á leiðinni milli Bolungarvíkur og Hnífsdals eru nú þegar fjögur vegaskýli og svo önnur varnarmannvirki gegn snjóflóðum og grjóthruni. Ekki fengust upplýsingar frá Vegagerðinni um þann kostnað sem varið hefur verið til þessara mannvirkja á síðustu árum en hann er verulegur að sögn heimildarmanns þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×