Erlent

Kjarnorkubjörninn ekki unninn

Loforði Norður-Kóreu um að hætta við kjarnorkuvopnaáætlun sína hefur verið fagnað, en menn óttast þó að björninn sé ekki endanlega unninn. Það er ekkert leyndarmál að Norður-Kóreumenn voru keyptir til þess að gefa upp kjarnorkuvopnaáætlun sína. Í samkomulagi þar um, sem var undirritað í Peking í dag, er að vísu loforð um að Bandaríkin og Japan leggi af allar áætlanir um innrás í Norður-Kóreu, en það er bara barnalegur fyrirsláttur. Hvorki Bandaríkin né Japan hafa nokkurn áhuga á árás, nema því aðeins að Kóreumenn héldu áfram vopnaáætlun sinni. Það sem skiptir máli í samkomulaginu er að öll löndin fimm, sem stóðu í þessum samningum, gefa loforð um efnahagsaðstoð og viðskipti. Þessi lönd eru Bandaríkin, Kína, Rússland, Japan og Suður-Kórea. Efnahagur Norður-Kóreu er gersamlega í rúst og milljónir manna draga fram lífið á matargjöfum erlendis frá. Því er haldið fram að milljónir hafi þegar soltið í hel og að þau börn sem þó lifa séu alvarlega vannærð. Stjórnvöld í Norður-Kóreu virðast þó ekki hafa áhyggjur af því og hafa áður svikið gefin loforð í kjarnorkumálum sínum. Menn fara því varlega í að fagna endanlegum sigri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×