Erlent

Aldrei minni munur á fylkingum

Sextíu og tvær milljónir Þjóðverja geta í dag ákveðið hver verður kanslari landsins næstu fjögur ár. Aldrei í nútímastjórnmálasögu Þýskalands hefur munurinn á milli fylkinga verið jafn lítill og kosningabaráttan virðist halda áfram þar til kjörstöðum verður lokað. Það var Gerhard Schröder sem ákvað að efna til kosninga ári fyrr en lög kveða á um. Samstarfsflokkurinn, Græningjar, og mörg flokkssystkin hans voru til vandræða og meirihlutinn í efri deild þingsins var nánast horfinn svo að hann taldi sér ófært að fá umbótahugmyndir sínar samþykktar á þinginu. Það er enn með öllu óljóst hvort áhættan var þess virði því það er vonlaust að spá fyrir um hvað kemur í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan átta í morgun og verða opnir til klukkan sex. Dagblaðið die Welt slær því upp að þá ljúki líka kosningabaráttunni. Stjórnmálamennirnir voru margir hverjir mættir snemma á kjörstaði þó að þeir hafi verið á ferð og flugi fram eftir kvöldi í gær og öskruðu sig margir hása af æsingi þar sem þeir reyndu að sannfæra kjósendur um að velja rétt. 62 milljónir eru á kjörskrá og er búist við því að allt að 80 prósent þeirra notfæri sér atkvæðisrétt sinn. Spurningin er bara hvern þessar milljónir ætla að kjósa. Fjórðungur kjósenda er óákveðinn og óvissan eftir því. Að sama skapi er óvíst hvað það er sem kjósendur sækjast eftir. Kosningamálin hafa verið stöðnun í efnahag landsins, mikið atvinnuleysi og svo utanríkismál, ekki síst afstaðan til stríðsins í Írak. Fjölmargir kjósendur eru hins vegar sagðir taka lítið eftir umræðunum og velja sér þann leiðtoga sem þeim líst best á, þá út frá persónuleikanum frekar en stefnunni. Kjaftasögur komust á kreik seint í gær um að Gerhard Schröder væri þegar farinn að leggja grunninn að lífi eftir pólitíkina. Hann hefur löngum þótt hafa góð tengsl við viðskiptalífið og samkvæmt fregnum nokkurra þýskra fjölmiða stefnir hann einmitt þangað. Hann á að hafa fengið tilboð frá fjárfestingabankanum Merrill Lynch um starf og laun upp á eina og hálfa milljón evra á ári, 113 milljónir króna. Talsmaður Schröders vísaði fregnunum á bug og sagði þær tóman þvætting. En þetta er þvættingur sem getur komið sér illa fyrir Schröder þar sem óákveðnir kjósendur og aðrir gætu brugðist ókvæða við. Í Washington yrði því fagnað ef Schröder tæki tilboðinu meinta því það þýddi líkast til að kanslarinn héti Angela Merkel. Fréttatímaritið Focus greinir frá því í dag að í Hvíta húsinu sé vonast til þess að Merkel hafi betur því líkast til væri hægt að vinna betur með henni en Schröder. Þessi afstaða gæti komið Schröder til góða því Þjóðverjar eru almennt lítt hrifnir af George Bush. Og fleira gæti haft áhrif. Götublaðið Bild greindi frá því í gær að fullt tungl yrði á kjördag og að áhrif þess gætu ráðið úrslitum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×