Innlent

Tveggja íslenskra kvenna er saknað

Ekkert hefur enn heyrst frá Lilju Aðalbjörgu Ólafsdóttur Hansch sem leitað hefur verið síðan fellibylurinn gekk yfir bæ hennar. Áður var talið að Lilja væri eini Íslendingurinn sem ekki var búið að ná í en nú hefur komið í ljós að 75 ára íslenskrar konu er einnig saknað. Konan heitir Karly Jóna Kristjónsdóttir Legere og er kölluð Systa. Íslenskur frændi hennar hafði samband við utanríkisráðuneytið á laugardaginn og síðan þá hefur hennar verið leitað. Systa býr ásamt manni sínum, Robert Legere, í smábænum Diamond Head sem er um 75 km norð-austur af New Orleans og er hans og barnanna þeirra þriggja enn saknað. Systa á við hjartavandamál að stríða. "Það hefur ekki fengist staðfest hvar þær eru niðurkomnar og við höfum verið að reyna að koma því til leiðar að einhver fari á heimili þeirra og kanni aðstæður þar," sagði Pétur Ásgeirsson skrifstofustjóri á almenningsskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Þegar blaðið fór í prentun hafði engum tekist að fara og kanna hvort konurnar tvær hefðust við á heimilum sínum því samgöngurnar á svæðinu eru svo erfiðar. Seint í gærkvöld var vonast til þess að íslensk kona, Þórey Jónsdóttir Harvey, myndi fara og keyra framhjá húsum kvennanna. Hún missti hús sitt og allar eigur í hamförunum. Ekki náðist í Þóreyju þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ekkert hefur enn fréttst af Lilju Aðalbjörgu Ólafsdóttir en maður hennar er að koma heim frá Japan að sögn Helgu Hrannar Ólafsdóttur systur Lilju. Einnig ætlar bróðir þeirra að fara á hamfarasvæðið við annan mann ef Lilja verður enn ófundin á morgun. Margir Íslendingar og aðrir velviljaðir leggja sitt af mörkum við að finna konurnar tvær. Einn af þeim heitir Frank Bocchino og býr í bænum Pensicola sem er vestast í Flórídafylki. "Ég er að leita að tveimur konum núna. Ég vonast til að fá fréttir af þeim í dag eða á morgun en það er ekki alveg víst vegna þess hvernig ástandið er," segir Frank. Hann nýtir sér sambönd við kunningja sína í lögreglunni í bænum Biloxi, en bærinn varð mjög illa úti í hamförunum. Hann segir allgjört forgangsverkefni að finna Systu vegna hjartveikinda hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×