Sport

Á eftir að sanna sig í Hraðbraut

Ungmennalandsliðsmaðurinn Viktor Bjarki Arnarsson varð að draga sig úr landsliðshópi Íslands skipaðað leikmönnum 21 árs og yngri en fram undan eru leikir gegn Króatíu og Búlgaríu, rétt eins og hjá A-landsliðnu. Landsliðshópurinn kom saman á hóteli á Selfossi á miðvikudag en leikurinn gegn Króötum verður á KR-vellinum í dag og strax á morgun verður haldið utan til Búlgaríu, þar sem leikið verður á þriðjudaginn. Það er því heil vika sem landsliðsmennirnir eru frá sínum heimaslóðum. "Vika í Hraðbraut er eins og mánuður í öðrum framhaldsskólum," sagði Ólafur Johnson, skólastjóri Hraðbrautar við Fréttablaðið. Viktor Bjarki hóf þar nám í síðasta mánuði og af þeirri ástæðu gat hann ekki gefið kost á sér í landsliðið -- hann fékk ekki frí frá skólanum. "Næsta vika er síðasta vika fyrir próf hjá okkur og því erfitt að missa hana út. Það hefur allt önnur áhrif hér en í öðrum framhaldsskólum. Nemendur verða að sýna að þeir fóti sig vel í náminu áður en við getum farið að veita þeim þetta svigrúm," sagði Ólafur. "Við fórum yfir allt þetta með Viktori og hann kom inn í skólann á þeim forsendum." "Almennt hafa þessi mál fengið farsælan enda," sagði Geir Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri KSÍ, um samstarf sambandsins við skóla. "Yfirleitt reynum við að forðast það að setja á leiki í miðri próftörn hjá unglingalandsliðum en yfirleitt er þetta meira eða minna undir nemandanum sjálfum komið. Ef viðkomandi einstaklingur er sterkur í námi á hann að geta unnið upp þennan tapaða tíma. En Hraðbrautin er nýjung í skólakerfinu og þar er þetta sjálfsagt erfiðara." Geir segist efast um að staða Viktors í landsliðinu breytist við þetta. "Við verðum að sýna mönnum skilning sem eru í námi. Þeim verður ekki refsað fyrir að vera í námi enda eru þetta ekki atvinnumenn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×