Innlent

Viðskipti, fótbolti og forvarnir

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fer í vinnuheimsókn til Búlgaríu á miðvikudag. Eftir hádegisverð með Georg Parvanov, forseta Búlgaríu, mun Ólafur kynna sér samstarfsverkefni íslenskra og búlgarska fyrirtækja. Meðal þess sem hann mun kynna sér er starfsemi Actavis í Búlgaríu, BTC símafélagið og gangur viðræðna um kaup á búlgarska bankanum El Bank. Að kvöldi miðvikudags mun forsetinn, í boði Parvanovs, fylgjast með íslenska landsliðinu í knattspyrnu spila gegn því búlgarska í leik í undankeppni heimsmeistarakeppninnar í fótbolta. Á fimmtudag, sem er lokadagur heimsóknarinnar, mun Ólafur Ragnar kynna sér áherslur Búlgaríu í baráttunni gegn fíkniefnum, með heimsókn í miðstöð gegn fíkniefnum. Örnólfur Thorsson, skrifstofustjóri á skrifstofu forsetans, segir að heimsóknin í miðstöðina sé meðal annars til komin vegna þess að Ólafur er verndari verkefnisins Evrópsk æska, sem snýr að forvarnarstarfi gegn eiturlyfjum. Verkefnið er á vegum ECAD, evrópskra borga gegn eiturlyfjum, sem bæði Reykjavík og Sofía, höfuðborg Búlgaríu, eru aðilar að.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×