Erlent

Deilt um stjórnarskrá í Írak

Ekkert bólar enn á stjórnarskrá Íraks en hún á að liggja fyrir í dag. Fréttaskýrendur segja hægt að lengja frestinn eða leysa upp þingið og efna til nýrra kosninga. Í síðustu viku gáfu írakskir þingmenn sér viku til viðbótar til að ná sáttum um drög að stjórnarskrá sem ennþá er deilt um. Virðist sem að þeir hafi um fátt annað að velja í dag en að framlengja frestinn um aðra viku. Sendiherra Bandaríkjanna í Írak mun sem stendur leiða viðræður samstarfshóps Sjíta og Kúrda og miðar starfið að því að hagræða þeim drögum sem nú liggja fyrir svo að Súnnítar geti sætt sig við þau. Súnnítarnir eru alls ekki reiðubúnir að sætta sig við kröfur Sjíta um sjálfstæð hérað Sjíta í suðurhluta Íraks, þar sem mikið er um olíulindir. Kúrdar krefjast einnig nokkurs sjálfstæðis og eru sagðir allt annað en sáttir við að íslam skuli vera orðinn mikilvægur hluti stjórnarskrárdraganna. Þessar þrætur eru ekki einungis vandræðalegar heldur eru Bandaríkjamenn á því að þær geti valdið frekari upplausn. Að sama skapi myndi stjórnarskrá draga úr ofbeldi, þó að fréttaskýrendur á staðnum segi ekkert bendi til þess. Á heimavelli í Washington magnast einnig deilur því í gær reið þungavigtarmaður úr röðum Republíkana á vaðið og gagnrýndi stríðsreksturinn. Chuck Hagel er talinn líklegur forsetaframbjóðandi eftir þrjú ár og hlaut heiðursmerki fyrir framgöngu sína í Víetnam. Hann sagði í sjónvarpsviðtali í gær að stríðið í Írak hefði valdið óöryggi og ringulreið í Miðausturlöndum og að ástandið minnti helst á Víetnam. Tímabært væri að huga að brotthvarfi til að valda ekki enn meiri ringulreið. Úr Hvíta húsinu berast þau skilaboð að það verð að halda áfram þar til yfir lýkur og varnarmálaráðuneytið vinnur nú að áætlun sem gerir ráð fyrir yfir hundrað þúsund bandarískum hermönnum í Írak eftir fjögur ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×