Innlent

Kamfýlóbakterbarátta vekur athygli

Baráttan við kamfýlóbakter hefur tekist svo vel hér á landi að það hefur vakið athygli víða um heim. Á árlegu þingi smitsjúkdómalækna á Norðurlöndum sem hófst í Reykjavík í dag munu íslenskir vísindamenn halda fyrirlestur og kynna árangur sem náðst hefur hér á landi í baráttunni við kamfýlóbakter. Aðspurð um stöðu kamfýlóbakter hér á landi segir Hjördís Harðardóttir smitsjúkdómalæknir að hún sé nokkuð góð miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Íslendingar hafi lítið hugsað um kamfýlóbakter fyrr en faraldur dundi yfir á árunu 1998 til 2000, en árið 1999 hafi yfir 300 manns veikst af kamfýlóbakter. Sá faraldur hafi verið rakinn til neyslu á ferskum kjúklingi sem þá hafi verið ný vara. Í baráttunni gegn sýkingunni, sem veldur vanlíðan og óþægindum eins og niðurgangi, var horft bæði til neytenda og framleiðenda. Neytendum var kennt að meðhöndla kjúkling rétt. Þá er strangt eftirlit með kjúklingaslátrun sem felst meðal annars í því taka sýni úr kjúklingahópum tveimur dögum fyrir slátrun. Ef sýking mælist í fuglunum fara þeir síðastir í slátun þann daginn auk þess sem þeir eru frystir. Kjúklingar eru ekki einu smitberara kamfýlóbakter en auk þeirra má helst nefna aðra alifugla og húsdýr, þar með talin gæludýr. 40 hafa smitast af kamfýlóbakter það sem af er árinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×