Innlent

Leit þýskra tollayfirvalda ólögmæt

Skipverjarnir tveir af togaranum Hauki ÍS sem handteknir voru í Bremerhaven í Þýskalandi í byrjun janúar með sjö kíló af kókaíni og hassi í klefum sínum eru lausir allra mála eftir að þýskur dómstóll komst að því að leit lögreglu og tollgæslu hefði verið ólögmæt. Hefur rannsókn málsins verið hætt í kjölfarið enda hafði lögregla engin önnur sönnunargögn en efnin sjálf þar sem mennirnir játuðu aldrei sök sína og þar sem leitin var dæmd ólögmæt var því úr engu að moða fyrir ákæruvaldið. Fimmtán ára fangelsi að lágmarki beið mannanna tveggja hefðu þýskir dómstólar komist að sekt þeirra en annar mannanna er komin vel yfir fimmtugsaldur. Vakti málið talsverða athygli þegar upp komst enda þótti magn fíkniefnanna afar mikið og var um það fjallað í þýskum fjölmiðlum. Var skipið að ljúka við að landa karfa í Bremerhaven þegar 40 manna leitarhópur lögreglu og tollayfirvalda framkvæmdi leitina en þaðan lá leið skipsins beint til Íslands og ætlaði lögregla að smygla ætti efnunum hingað til lands til dreifingar. Var gerð ítarleg leit í skipinu skömmu áður en það lagði úr höfn eftir löndun en öðrum skipverjum en þeim tveimur sem efni fundust hjá var leyft að halda för sinni til Íslands áfram eftir að þeirri leit var hætt. Voru tvímenningarnir dæmdir til sex mánaða gæsluvarðhalds en fengu lausn fyrr og voru báðir komnir hingað heim um miðjan maí. Til stóð að óska aðstoðar lögreglu hérlendis vegna málsins en til þess kom þó ekki og geta sakborningarnir tveir nú andað rólegar enda komst dómstóllinn að því að leitin í skipinu hefði ekki verið samkvæmt lögum þar sem dómsúrskurð vantaði og málið verið látið niður falla vegna þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×