Erlent

Vonskuveður olli flugslysi

Mikill regnstormur með þrumum og eldingum er talinn hafa orðið til þess að farþegaþota Air France rann út af flugbraut í Toronto í Kanada í fyrrakvöld. 309 farþegum og áhöfn tókst naumlega að komast frá borði áður en mikill eldur blossaði upp í þotunni. Fagnaðarlæti brutust út í þotunni eftir að hún lenti á Pearson-flugvellinum í Toronto enda hafði þotan þurft að hringsóla yfir vellinum vegna erfiðra veðurskilyrða. Rafmagn fór einnig af farþegarýminu skömmu fyrir lendingu og sátu farþegar því í niðamyrkri. Fögnuðurinn breyttist hins vegar fljótt í skelfingu þegar vélin rann út af flugbrautinni og hafnaði í skógivöxnu gili nærri fjölfarinni hraðbraut með þeim afleiðingum að hún brotnaði í tvennt. Farþegar kváðust afskaplega þakklátir fyrir að allir sluppu lifandi frá brotlendingunni en einungis hlutust minniháttar meiðsl af því farþegarnir stukku niður úr dyrum vélarinnar og renndu sér niður neyðarrennur. Flugvélin var rýmd á innan við tveimur mínútum. "Við reyndum að brölta upp hæð í nágrenninu en það gekk erfiðlega þar sem hún var þakin leðju og við þurftum að hugsa um börnin okkar," sagði Gwen Dunlop, einn farþega flugvélarinnar. Annar farþegi lýsti því hvernig farþegar klifruðu hver um annan þveran í örvæntingu til þess að reyna að komast út úr vélinni. Skiptar skoðanir voru um frammistöðu áhafnar vélarinnar. Yfirmaður slökkviliðs flugvallarins sagði rýmingu flugvélarinnar hafa gengið fljótt og vel fyrir sig og greinilegt að þar hefði vel þjálfað fólk verið að störfum. Sumir farþeganna gagnrýndu þó frammistöðu flugþjóna og sögðu þá ekki hafa brugðist nógu fljótt og vel við. Heimilt var að lenda á flugvellinum í fyrrakvöld en gefið var merki um að mögulegt væri að eldingu slægi niður. Þotan hafði nógu mikið eldsneyti um borð til þess að fljúga til Montreal eða annars flugvallar þar sem veður var skárra að sögn embættismanna á flugvellinum. Undir flugstjóra sé komið hvernig brugðist sé við slíkum merkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×