Erlent

Hiroshima minnst

Eftir þrjá daga verða nákvæmlega sextíu ár síðan kjarnorkusprengja féll á borgina Hiroshima í Japan. Fórnarlambanna var minnst með viðhöfn í borginni í gær. Um tvö hundruð manns, flestir annað hvort fórnarlömb árásarinnar eða ættingjar fórnarlambanna, komu saman á sérstakri athöfn í Hiroshima í gær til að minnast atburðanna sem áttu sér stað fyrir nærri sextíu árum. Tvö hundruð og þrjátíu þúsund manns létust í sprengingunum á Hiroshima og Nakasaki, sem bundu endi á heimstyrjöldina síðari. Þeir sem lifðu sprengingarnar af munu aldrei gleyma upplifuninni, einn þeirra er Hitoshi Takayama. Hann var fimmtán ára gamall þegar árásin var gerð. Stríðið var í hámarki og í Japan voru allar vinnubærar hendur notaðar til starfa í verksmiðjum. Í stað þess að fara í skólann mætti Takayama því í eina slíka ásamt bekkjarfélögum sínum að morgni sjötta ágúst 1945. Klukkan var rétt orðin átta þegar bjart ljós umlauk vitund ungmennanna. Takayama lifði árásina af en það voru ekki allir svo heppnir.   Þegar ljósið hvarf var borgin eins og Takayama hafði þekkt hana líka horfin og ekkert eftir nema brak og rústir svo kílómetrum skipti. Sextíu árum eftir árásir sem heimsbyggðin gleymir aldrei er búið að endurbyggja Hiroshima frá grunni og meira en milljón manns lifa þar venjubundnu lífi. Þar eru þó enn ummerki um atburði sem allir vona að eigi aldrei eftir að eiga sér stað á nýjan leik. Sagnfræðingar deila um réttmæti þess að kjarnorkusprengjum hafi verið varpað á Japan í þeim tilgangi að binda enda á seinni heimsstyrjöldina. Sumir telja slíkar aðgerðir aldrei réttlætanlegar, aðrir að innrás í Japan hefði kostað enn meiri mannfórnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×