Erlent

35 ára stríði lokið á Írlandi

Írski lýðveldisherinn, IRA, hefur ákveðið að leggja niður vopn. Þar með lýkur þrjátíu og fimm ára blóðugu tímabili í sögu samtakanna, sem talin eru bera ábyrgð á dauða nærri tvö þúsund manna. Vopnahlé írska lýðveldishersins tók formlega gildi klukkan þrjú að íslenskum tíma. Í yfirlýsingu ÍRA segir að öllum innan samtakanna verði fyrirskipað að berjast fyrir málefnum lýðveldishersins á vettvangi stjórnmála og öllu ofbeldi og hryðjuverkum verði hætt. Verði yfirlýsingunni fylgt eftir, lýkur þrjátíu og sex ára tímabili, þar sem írski lýðveldisherinn hefur beitt hryðjuverkum og öðru ofbeldi í því augnamiði að ná fram pólitískum markmiðum sínum. Í gær slepptu bresk yfirvöld Sean Kelly úr haldi. Hann er lykilmaður innan samtaka ÍRA og tók þátt í að sprengja upp verslun í Shankill árið 1993, með þeim afleiðingum að níu manns létust. Talið er að frelsun Kellys skýri að miklu leyti tímasetninguna á yfirlýsingu írska lýðveldishersins. Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands var kampakátur í dag og sagði að yfirlýsingin ætti sér ekki fordæmi. Og Tony Blair tók í sama streng og sagði að nú væri sá dagur loks runninn upp þar sem raunverulegur friður kæmi í stað stríðs á Írlandi. Hann fagnaði yfirlýsingu og ákvörðun írska lýðveldishersins og sagði þetta vera sögulega stund. Það eru hins vegar ekki allir jafn sannfærðir og Blair. Andstæðingar ÍRA eru hræddir um að yfirlýsingin sé ekkert nema orðin tóm. Talsmenn Sambandssinna segja að undanfarinn áratug hafi margoft verið talað um sögulegan frið og tímamót, án þess að því hafi verið fylgt á eftir. Aðgerðir lýðveldishersins næstu mánuði og ár séu það eina sem máli skipti og öllum yfirlýsingum beri að taka með varúð. Það vekur athygli að í yfirlýsingu ÍRA kemur ekki fram nein afsökunarbeiðni og þar er sérstaklega tekið fram að allar aðgerðir lýðveldishersins hafi verið lögmætar. Hins vegar hafi bæði írsk og bresk stjórnvöld dregið lappirnar í friðarferlinu. Meira en þrjú þúsund og fimm hundruð manns hafa fallið í átökum tengdum valdabaráttunni á Norður Írlandi undanfarin þrjátíu ár og talið er að rekja megi meira en helmingnum af öllu mannfallinu beint til ÍRA.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×