Erlent

Danir og Kanadamenn deila um smáey

Danska ríkisstjórnin tilkynnti í gær að hún muni mótmæla því skriflega við kanadísk yfirvöld að kanadíski varnarmálaráðherrann, Bill Graham, steig á land á Hans eyju fyrir fáeinum dögum án þess að láta Dani vita. Hans eyja er óbyggð og liggur norð-vestur af Grænlandi, um ellefu hundruð kílómetra suður af Norðurpólnum. Bæði Danir og Kanadamenn gera tilkall til eyjunnar, sem er um 1,3 ferkílómetrar að stærð. Eyjan er lögð ís og ómanngeng nema á hlýjum sumrum þegar ísinn bráðnar og hægt er að sigla að eynni. Danir og Kanadamenn hafa átt í áralöngum deilum um yfirráð á eynni, eða allt frá því árið 1973 þegar miðlína var dregin um Naressund milli Grænlands og Ellesmereeyju, sem tilheyrir Kanada. Bæði löndin ákváðu að yfirráð yfir Hans eyju skyldu afráðin síðar, en það hefur ekki enn verið gert. Árið 1984 olli þáverandi Grænlandsmálaráðherra Danmerkur, Tomy Hoeyem, uppnámi þegar hann dró danska fánann að húni á eyjunni, gróf brandíflösku í jörðu þar sem flaggstöngin var reist og skildi eftir miða sem á stóð: Velkominn til dönsku eyjunnar. Kanadískir hermenn höfðu heimsótt eyjuna skömmu á undan Bill Graham og dregið kanadíska fánann að húni. Þeir reistu jafnframt inúítastyttu sem tákna átti yfirráð Kanadamanna yfir eynni. Í mótmælum dönsku ríkisstjórnarinnar mun koma fram að harmað sé að kanadíski ráðherran hafi heimsótt eyjuna án þess að tilkynna Dönum það áður. Þá verði bent á að eyjan sé hluti af Grænlandi en janframt lagt til að viðunandi lausn verði fundin á málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×