Sport

Glæsilegum ferli Birkis lokið

Markvörðurinn Birkir Kristinsson, sem varið hefur mark knattspyrnuliðs ÍBV undanfarin sex ár, er hættur keppni. Birkir lenti í hörðu samstuði við Davíð Þór Viðarsson í viðureign ÍBV og FH á dögunum, og þurfti í kjölfarið að yfirgefa völlinn. Það kom síðan í ljós að Birkir viðbeinsbrotnaði og herðablað brákaðist einnig. "Því miður er ég hræddur um að ferill minn sé á enda núna. Ég ætlaði mér að hætta eftir þetta tímabil en þessi meiðsli halda mér frá keppni það sem eftir er af því." Birkir hefur ekki meiðst mikið á sínum ferli, sem sýnir sig best á því að hann hefur spilað meira en þrjú hundruð leiki í röð í efstu deild. "Ég var nú einmitt að ræða það um daginn við einhvern hversu heppinn ég hef verið á mínum ferli. Ég hef lítið sem ekkert meiðst. Það er leiðinlegt að þurfa að hætta keppni með þessum hætti. Það var auðvitað markmið hjá mér að hjálpa ÍBV að halda sér uppi í deildinni. Núna kemur bara maður í minn stað og stendur sig örugglega vel. Ég hef fulla trú á því að ÍBV geti haldið sér uppi." Landsliðsferill Birkis kláraðist í fyrra þegar hann byrjaði inni á einum eftirminnilegasta landsleik sem íslenskt landslið hefur spilað, gegn Ítölum á Laugardalsvelli. Hann hefur spilað meira en 10 þúsund mínútur í röð í efstu deild og æft undir stjórn margra góðra þjálfara. "Hörður Helgason og Ásgeir Elíasson reyndust mér vel og gaman að vinna með þeim, en annars hef ég verið heppinn með þjálfara á mínum ferli. Ég hef að auki æft vel sjálfur. Yfirleitt er ég aðeins lengur eftir æfingar til þess að gera séræfingar. Það mættu fleiri gera það, því maður nær mestum árangri með því að æfa mikið. Ég er ekkert betri en aðrir markverðir held ég, en ég náði oft að gera mitt besta með því að æfa mikið. Markvarðarstaðan er mikil einbeitingarstaða og því hafa miklar æfingar mikið að segja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×