Erlent

Hryðjuverkamannanna leitað

Átök brutust út þegar egypska lögreglan umkringdi tvö þorp þar sem talið var að hryðjuverkamenn héldu til. Alþjóðlegum hryðjuverkamönnum er kennt um tilræðin í Sharm el Sheikh sem kostuðu áttatíu og átta lífið. Yfirvöld í Egyptalandi vilja ná tali af tugum manna og hafa meðal annars dreift myndum af fimmtíu sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkunum í Sharm el Sheikh. Þeirra á meðal er nokkur fjöldi Pakistana en reynist þeir eiga aðild að tilræðunum væri það nýmæli. Hingað til hafa heimamenn staðið fyrir hryðjuverkunum í landinu, ekki síst á ferðamannastaði. Alþjóðlegir hryðjuverkamenn eru meðal þeirra sem lýst hefur verið eftir og í dag voru tvö bedúínaþorp skammt frá Sharm el Sheikh umkringd. Grunur lék á að tveir Pakistananna héldu þar til og mun hafa komið til skotbardaga á milli lögreglu og bedúína sem vernduðu Pakistanana. Aðild Pakistana að tilræðunum þykir benda sterklega til þess að al-Qaida hafi verið að verki en Osama bin Laden og fylgismenn hans halda til á landamærum Pakistans og Afganistans. Þessar fregnir og árásirnar í London, þar sem Bretar af pakistönskum uppruna voru að verki, hefur beint kastljósinu að Pakistan og stjórnvöldum þar. Forsetinn, Perves Musharraf, segir her og leyniþjónustu landsins hafa gengið frá al-Qaida sem eigi sér hvergi skjól. Núna taki hver skilaboð 1-2 mánuði að fara á milli staða og því sé fráleitt við þessar aðstæður að samtökin, eða einhver annar, geti stjórnað árásum í London, Sharm el Sheikh, Istanbúl eða Afríku frá Pakistan.  Engu að síður þykja starfsaðferðir og ummerki á báðum stöðum benda til þess að Musharraf hafi rangt fyrir sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×