Sport

Ólympíuleikarnir 2012 í Lundúnum

Ólympíuleikarnir verða haldnir í Lundúnum árið 2012. Þetta var tilkynnt í Singapúr fyrir nokkrum mínútum. Gríðarleg gleði braust út í miðborg Lundúna þar sem tugþúsundir manna höfðu safnast saman þegar Jaques Rogge, formaður Alþjóða ólympíunefndarinnar, kynnti niðurstöðuna. Hinar fjórar borgirnar sem sóttu um að fá að halda leikana voru París, Moskva, New York og Madríd. Talningin í morgun fór þannig fram að sú borg sem fékk fæst atkvæði í hverri umferð datt út. Moskva heltist fyrst úr lestinni um klukkan hálfellefu. Fljótlega í kjölfarið duttu New York og Madríd svo út svo að eftir stóðu París og Lundúnir. Fyrir klukkan ellefu var svo búið að velja borgina sem skyldi halda leikana en niðurstaðan var ekki kynnt fyrr en rétt í þessu. Ólympíuleikarnir hafa tvisvar sinnum farið fram í Lundúnum en það er orðið býsna langt síðan það gerðist síðast. Það var árið 1948 eða fyrir nærri sextíu árum. Þar á undan voru leikarnir haldnir í borginni árið 1908. Öllu var tjaldað til í baráttunni fyrir því að fá að halda leikana og undanfarna tvo daga hafa þjóðarleitogar og núverandi og fyrrverandi íþróttastjörnur streymt til Singapúr til að sannfæra Alþjóða ólympíunefndina um ágæti sinnar borgar. Englendingar lögðu mikla áherslu á að leikarnir yrðu haldnir þar og til marks um það voru Tony Blair og David Beckham sendir til Singapúr. Næstu Ólympíuleikar, sem haldnir verða eftir þrjú ár, fara fram í Peking í Kína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×