Sport

Fundurinn með Óla Stefáni gekk vel

Í gær var haldinn sáttafundur hjá knattspyrnudeild Grindavíkur. Mættir voru forráðamenn félagsins, Milan Stefán Jankovic og Óli Stefán Flóventsson. Tilefni fundarins var að sætta aðila eftir að upp úr hafði soðið á milli þjálfarans og leikmannsins en Óli Stefán var settur í agabann eftir að hafa skellt sér út á lífið eftir landsleik Íslands og Ungverjalands, átta dögum fyrir næsta leik sem var gegn Fylki. „Ég ætla að ræða við hann um allt og allt. Það kemur svo í ljós hvað gerist,” sagði Óli Stefán fyrir fundinn en ekki náðist í hann áður en blaðið fór í prentun í gærkvöldi. „Ég skulda öllum í kringum fótboltann í Grindavík það að reyna eitthvað að leysa málin. Það eru tveir að deila og það verður að mætast á miðri leið ef eitthvað á að gerast.” Að sögn Jónasar Þórhallssonar, formanns knattspyrnudeildar Grindavíkur, gekk fundurinn vel og á hann ekki von á öðru en að Óli Stefán haldi áfram hjá Grindavík. Hann sé með þriggja ára samning við félagið sem hann skrifaði undir í haust og að ekkert hafi breyst í þeim málum. Óli Stefán er leikreyndasti leikmaður Grindavíkur og hefur leikið á annað hundrað leiki með liðinu í efstu deild. Hann og Milan Stefán Jankovic hafa unnið saman allar götur síðan 1992, fyrst sem leikmenn en svo með núverandi hætti ef frá eru talin þau tvö ár sem Milan Stefán þjálfaði Keflvíkinga. Það er vitað að sem þjálfari heldur Milan Stefán uppi miklum aga meðal leikmanna sinna og því ekki óeðlilegt að einhverntímann komi upp árekstrar í samstarfinu. Ekki náðist í Óla Stefán sem fyrr segir og því verður að koma í ljós hvort vilji sé hans megin til að halda áfram sem leikmaður Grindavíkur. Engin æfing var hjá liðinu í gærkvöldi en það verður æft í kvöld. Óli Stefán er boðaður á æfinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×